Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Steypireyðarbeinagrind sýnd í Perlunni

Mynd með færslu
 Mynd:

Steypireyðarbeinagrind sýnd í Perlunni

04.05.2014 - 17:48
Sýningarhald á vegum Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni verður fjármagnað af fjárfestingarsjóði, gangi áform eftir. Enn er stefnt að því að heilleg beinagrind steyðireyðar verði helsti sýningargripurinn. Áformað er að opna sýningu á náttúruminjum eftir eitt til tvö ár.

Síðasta ríkisstjórn ætlaði sér að veita 400 milljónum króna til að undirbúa sýningu í Perlunni og gert var ráð fyrir að ríkið leigði Perluna af borginni fyrir 80 milljónir króna á ári. Þessi áform voru slegin af í hagræðingaraðgerðum núverandi ríkisstjórnar.

Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, segir að frá því í haust hafi verið unnið að sýningarhaldi í Perlunni með öðru rekstrarfyrirkomulagi. Stefnt sé að því að fjárfestirinn Landsbréf ITF taki þátt í rekstrinum. „Í stuttu máli mun Náttúruminjasafnið leigja sýningarhald til þessa fjárfestis sem þá borgar stofnkostnaðinn og jafnframt stendur til að hann greiði Náttúruminjasafninu, eftir að reksturinn fer af stað, ákveðið þjónustugjald við að halda við sýningunni.“

Málið er ekki frágengið en Hilmar segir að allir séu áhugasamir. Landsbréf ITF er fjárfestingasjóður undir Landsbankanum og fjárfestir meðal annars í menningartengdri starfsemi. Talið er að um hálfan milljarð króna kosti að setja upp sýninguna og að það taki eitt og hálft til tvö ár. Deilt hefur verið um hver fái að sýna heillega beinagrind sem varðveist hefur af steypireyði. „Það er horft til beinagreindar steypireiðarinnar ennþá. Hún er það sterkur sýningagripur af þessu tagi. Það er sem sagt gert ráð fyrir að hún verði sett upp í Perlunni.“

Tengdar fréttir

Norðurland

Íhuga staðsetningu steypireyðar

Menningarefni

Perlan sérsniðin fyrir steypireyði