Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sterk tengsl á milli áfalla í æsku og sjúkdóma

Mynd með færslu
 Mynd: - - - Creative Commons Creative Common
Sterk tengsl eru á milli áfalla í æsku og ýmissa sjúkdóma síðar á lífsleiðinni. Með auknum stuðningi við fjölskyldur í vanda væri hægt að minnka þessi áhrif, að sögn Karenar Hughes, sérfræðings hjá heilsugæslu Wales. Hún hélt erindi í morgun á ráðstefnunni Börnin okkar, sem haldin er af Geðhjálp.

„Rannsóknir sýna að það eru mjög sterk tengsl á milli áfalla í æsku og sjúkdóma á fullorðinsaldri. Niðurstöður rannsókna sem við höfum gert í Wales sýna að þegar fólk hefur upplifað áföll eins og vanrækslu, misnotkun eða heimilisofbeldi í æsku, þá er meiri hætta á að það þjáist af þunglyndi og kvíða en einnig af ýmsum öðrum sjúkdómum eins og krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum,“ segir hún. Niðurstöður rannsóknanna hafa einnig sýnt að áföll í æsku auka líkur á reykingum, áfengisdrykkju, áhættuhegðun, sjálfsvígstilraunum og þungunum unglingsstúlkna. 

Helmingur hefur upplifað áföll í æsku 

Helmingur fullorðinna, sem tóku þátt í rannsókninni í Wales, hefur upplifað eitt þeirra atriða sem skilgreind eru sem áfall í æsku. 10 prósent hafa upplifað fjögur eða fleiri atriði. „Það fólk sem hafði upplifað fjögur eða fleiri atriði er átta sinnum líklegra til að verða þolandi eða gerandi í ofbeldismálum en það fólk sem ekki upplifði nein slík áföll.“ Að sögn Hughes eru niðurstöður rannsókna víðar í Evrópu sambærilegar.

Mynd með færslu
Karen Hughes, sérfræðingur hjá heilsugæslu í Wales. Mynd: Geðhjálp

Stuðningur við foreldra mikilvægur

Hughes segir mikilvægt að auka vitund um það hvað veldur slíkum vandamálum á heimilum. Margt sé til dæmis hægt að gera til að styðja foreldra sem vanrækja börn sín, sömuleiðis sé hægt að gera meira til að hjálpa fólki í neyslu. Einnig megi gera margt innan skóla til að styðja við börn sem verða fyrir áföllum. Þannig sé hægt að hjálpa þeim að vinna úr áföllum og minnka líkur á sjúkdómum síðar á lífsleiðinni.

Segir rétt viðhorf gera gæfumuninn

„Það er mikilvægt að skilja rót vandans, þá er frekar hægt að hjálpa fólki. Ekki bara líta á neyslu vímuefna sem slíka, heldur kanna hvað hafi á undan gengið og hugsa um hvernig það hafi gerst.“ Hún bendir á að um 90 prósent útkalla lögreglu í Wales séu ekki vegna glæpa, heldur vegna ýmissa flókinna fjölskylduvandamála. „Í þeim tilfellum er mikilvægt að allar stofnanir, sem að koma, vinni saman með réttu viðhorfi. Ýmsar ástæður eru fyrir þessum fjölskylduvandamálum, svo sem geðræn vandamál og fátækt. Með réttu viðhorfi er frekar hægt að koma fólki til hjálpar.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Geðhjálp