Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Stenst ekki að málið sé pólitískur leikur

16.08.2014 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Fullyrðingar innanríkisráðherra um að lekamálið sé ljótur pólítískur leikur standast ekki, í ljósi ákæru á hendur aðstoðarmanni hans. Þetta segir stjórnmálafræðiprófessor. Staða ráðherrans sé mjög erfið. Margir hafi ekki áttað sig á alvarleika lekamálsins alls.

Gísla Frey Valdórssyni aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra var tilkynnt af ríkissaksóknara í gær að hann yrði ákærður fyrir brot á lögum um þagnarskyldu. Ákæran hefur ekki verið birt honum formlega en Gísli Freyr er grunaður um að hafa lekið trúnaðargögnum úr ráðuneytinu sem innihéldu persónupplýsingar um hælisleitanda til fjölmiðla. 

Gísli Freyr segir í yfirlýsingu til fjölmiðla í gær að hann sé sannfærður um að verði sýknaður í málinu. Ákvörðun ríkissaksóknara valdi honum sárum vonbrigðum. Þá segir hann lögreglu hafa gengið fram af töluverðri hörku við rannsókn málsins. Hanna Birna sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem fram kom að hún hefði tilkynnti svo í einnig í gær að hún hefði leyst Gísla Frey frá störfum á meðan málið er til meðferðar fyrir dómstólum. Þá hefur hún að aukið óskað eftir því við forsætisráðherra að málefni dómsstóla og ákæruvalds færist til annars ráðherra. 

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor segir málið alvarlegt. „Staða ráðherrans er mjög erfið. Það er eins og margir hafi ekki áttað sig á því hversu alvarlegt mál er hér um að ræða. En það mátti vera ljóst þegar málið kom upp í upphafi að þetta var mál þeirrar tegundar sem að gæti reynst ráðherranum afar erfitt. Stjórnsýslubrot af þessu tagi hafa leitt til fjölmargra afsagnar ráðherra hérna í nágrannalöndunum,“ segir Ólafur. 

Ólafur segir vörn ráðherrans hafa verið óheppilega. „Hún hefur lagt áherslu á að málið sé fyrst og fremst pólítískar ofsóknir eða ljótur pólítískur leikur og þessi ákæra sýnir að svo er ekki.“

Ólafur segir best fyrir stjórnmálamenn sem lendi í svona máli að gera grein fyrir öllum staðreyndum eins fljótt og auðið er. „En í staðinn hafa menn hér verið að rekja úr einu víginu í annað. Hver ný uppljóstrun skaðar trúverðugleika ráðherrans. Bæði ráðherrann og aðstoðarmenn hans hafa í þessu máli öllu sett fram ummæli sem með góðgjörnustu túlkun má kalla villandi.“ Betra hefði verið fyrir ráðherrann að segja sig frá embætti. „Ég hygg að það hefði verið betra fyrir hana að segja sig alveg frá ráðherradómi í augnablikinu og sennilega gera það miklu fyrr.“