
Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er fjallað um rannsókn lögreglu á kynferðisbrotamálum sem hafi átt sér stað í Hlíðunum í Reykjavík. Tvær kærur hafi verið lagðar fram. Blaðið hafi heimildir fyrir því að árásirnar hafi verið hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.
Mönnunum var sleppt úr haldi eftir skýrslutökur. Fjöldi manna kom saman við lögreglustöðina í dag til að mótmæla því og samfélagsmiðlar loguðu í dag og þar voru birtar myndir af mönnunum tveimur og nöfn þeirra birt.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, segir það ekki rétt sem fram kom á forsíðu Fréttablaðsins að íbúð í Hlíðarhverfinu hafi „verið sérútbúin fyrir þessar athafnir." Það væri orðum aukið. „Sú mynd sem hefur verið máluð í þessu máli í fjölmiðlum er gríðarlega alvarleg og ég held að við getum alveg sagt það að hefði hún verið rétt þá hefðum við farið fram á almannagæslu. Ef það væri sérútbúin íbúð til að brjóta á öðru fólki. Ég hef sagt það að það er ekki rétt. Hún er ekki sér útbúin til þess.“
Kristín Þorsteinsdóttir útgefandi og aðalritstjóri 365, segir ekkert gefa ástæðu til að bera efnisatriði tilbaka. Það sem yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur við hana að athuga sé, að sagt sé að íbúðin hafi verið „sérútbúin" eins og lögfræðingurinn orðar það. Hvergi sé það orð að finna fréttinni, hvorki í dag né í fyrri fréttum um málið. Fréttablaðið hafi staðfestar heimildir fyrir því, að tól og tæki í íbúðinni hafi verið gerð upptæk. Það sem skipti máli sé, að kærur, sem staðfesta fréttirnar, séu komnar fram.