Stendur ekki til að skipa Gunnar sendiherra

05.12.2018 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, staðfestir það í færslu á facebook síðu sinni að hann hafi átt fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, að frumkvæði Sigmundar. Þar hafi Sigmundur greint honum frá áhuga Gunnars Braga Sveinssonar á sendiherrastöðu. Hann segir samkomulag um að Gunnari væri lofuð sendiherrastaðan honum algjörlega framandi. Ekki standi til að skipa Gunnar í stöðu sendiherra.

Í færslu Guðlaugar Þórs segir hann það alvanalegt að ráðherra hitti þingmenn að máli. Þá sé ekki óalgengt að ráðherra fái uppástungur og meðmæli með fólki í stöðu sendiherra. 

„Sem fyrrverandi utanríkisráðherra kann Gunnar Bragi að hafa haft væntingar um slíka skipun en það er í það minnsta ekki á grundvelli neinna loforða, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins, og raunar Gunnar Bragi sjálfur, hefur staðfest. Frásagnir í alræmdu samsæti á Klaustri um einhvers konar samkomulag í þessa átt voru mér enda algjörlega framandi, eins og ég hef þegar tjáð mig um, “ segir í færslunni.

Guðlaugur telur ástæðu til að árétta að á þeim tæpu tveimur árum sem hann hafi gegnt embætti utanríkisráðherra hafi hann ekki skipað neina nýja sendiherra við utanríkisþjónustuna.

„Það stendur ekki til af minni hálfu að gera breytingu þar á í tilefni af framangreindri málaleitan formanns Miðflokksins. Má öllum hlutaðeigandi vera það ljóst.“

Gunnar Bragi, þingmaður Miðflokks, heyrist á upptökum á barnum Klaustri gefa i skyn að hann eigi inni greiða hjá Sjálfstæðisflokki því hann hafi skipað Geir H. Haarde sendiherra árið 2014, í tíð sinni sem utanríkisráðherra. Gunnar Bragi sagði siðar að ekkert væri til í þessum ummælum en hann myndi þó hugleiða að þiggja sendiherrastöðu ef hún stæði honum til boða. Guðlaugur Þór og Bjarni Benediktsson hafa lýst því yfir að ráðherrann fyrrverandi eigi enga slíka greiða inni hjá Sjálfstæðisflokki. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi