Steingrímur Wernersson Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Steingrímur Wernersson úrskurðaður gjaldþrota
30.11.2017 - 15:34
Athafnamaðurinn Steingrímur Wernersson var úrskurðaður gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur 1. nóvember síðastliðinn. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu, þar sem skorað er á þá sem telja sig eiga kröfur á hendur Steingrími að lýsa þeim í búið innan tveggja mánaða. Skiptafundur verður haldinn 14. febrúar.
Steingrímur átti eignarhaldsfélagið Milestone ásamt Karli bróður sínum. Í mars dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Steingrím, Karl og Guðmund Ólason, sem var forstjóri Milestone, til að greiða þrotabúi félagsins sameiginlega rúmlega fimm milljarða króna auk vaxta og verðbóta. Skuldin stóð í maí í um tíu milljörðum króna.
Fréttastofa sagði frá því í september að skiptastjóri Milestone hefði farið fram á gjaldþrot Karls. Hann hefði lagt slíka beiðni fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í júlí. Fréttastofa hefur þó ekki upplýsingar um að Karl hafi verið úrskurðaður gjaldþrota.