Steingervingur dagsins

Mynd: Kevin Tuck / RGBStock

Steingervingur dagsins

07.12.2015 - 14:12

Höfundar

Stefán Gíslason fjallaðu um tvískinnung á loftlagsráðstefnunni í París í Samfélaginu í dag.

Fögur fyrirheit

Á loftslagsráðstefnum eins og þeirri sem nú stendur yfir í París eru margar ræður haldnar og mörg fyrirheit gefin. Allt er þetta eflaust mikilvægur hluti af undirbúningnum fyrir metnaðarfullt samkomulag á heimsvísu um að koma í veg fyrir að loftslagsbreytingarnar fari úr böndunum. Þegar rýnt er í innihaldið dettur manni þó stundum í hug að á þessum vettvangi sé helst til mikið lagt upp úr því að rifja upp eigið ágæti og segja frá háleitum markmiðum í þokkalega fjarlægri framtíð, án þess að hafa hugmynd um hvernig ætlunin sé að ná þessum markmiðum. Stundum bólar jafnvel á þversögnum, svo sem í máli þjóðarleiðtoga sem styðja vissulega að dregið verði verulega úr losun á heimsvísu en treysta sér samt ekki til að reiða fram umbeðnar fjárhæðir í sjóð til að hjálpa þróunarlöndunum til að takast á við vandann, á sama tíma og þeir verja miklu hærri fjárhæðum í að styrkja olíuiðnaðinn í eigin landi.

Rödd samviskunnar

Samtökin Climate Action Network eru ein þeirra samtaka sem láta sig aldrei vanta á loftslagsráðstefnum. Þetta eru heimssamtök rúmlega 950 umhverfisverndarsamtaka í rúmlega 110 löndum, sem hafa það að markmiði að hvetja til aðgerða til að halda loftslagsbreytingum í skefjum. Aðalmarkmið samtakanna er að vernda andrúmsloftið á sama tíma og stuðlað er að sjálfbærri þróun á heimsvísu, með sérstakri áherslu á jöfnuð. Eitt af því sem fulltrúar Climate Action Network gera á loftslagsráðstefnum er að veita hina vafasömu viðurkenningu Fossil of the Day eða Steingervingur dagsins, en þessa viðurkenningu hlýtur sú þjóð sem hefur sýnt mestan tvískinnung og staðið sig að öðru leyti verst á ráðstefnunni þann daginn. Því má kannski segja að Climate Action Network sé rödd samviskunnar í París þessa dagana og einn fárra sem lætur ekki nægja að hlusta á fögur orð, heldur sendir beitt skeyti til baka ef hljómur orðanna er áberandi holur.

Áður en lengra er haldið er rétt að viðurkenna að Steingervingur dagsins er ekki alveg nógu góð þýðing á Fossil of the Day, því að orðið Fossil vísar líka í jarðefnaeldsneyti sem kallast á ensku Fossil Fuel. Í þessum pistli verður samt áfram talað um Steingerving dagsins því að skárri þýðing hefur ekki fundist.

Steingervingur dagsins

Nýja-Sjáland fékk þann vafasama heiður að vera Steingervingur dagsins á fyrsta degi ráðstefnunnar í París. Verðlaunin fengu Nýsjálendingar fyrir framúrskarandi tvískinnung sem þeir sýndu með því að hvetja þjóðir heims til að hætta að styrkja kola-, olíu- og gasiðnaðinn á sama tíma og styrkir þeirra sjálfra námu 80 milljónum dollara. Forsætisráðherrann John Key gekk meira að segja svo langt að halda því fram á fundi að Nýja-Sjáland væri í fararbroddi í því að afnema styrki af þessu tagi, þrátt fyrir að styrkirnir í hans eigin landi hefðu sjöfaldast frá því að hann sjálfur komst til valda árið 2008. Þennan dag fengu Belgar líka sérstaka tilnefningu fyrir að hafa dregist rækilega aftur úr öðrum Evrópuþjóðum í viðleitninni til að draga úr losun.

Á öðrum degi ráðstefnunnar í París voru fulltrúar Climate Action Network í svo góðu skapi að þau afhentu engan steingerving. Þess í stað veittu þau viðurkenninguna Geisli dagsins, en tóku um leið skýrt fram að slík viðurkenning væri alls ekki veitt á hverjum degi. Geisla dagsins fékk hópur 43 berskjaldaðra ríkja, þ.e.a.s. ríkja sem eiga sérstaklega mikið undir því að loftslagsbreytingum verði haldið í skefjum. Þessi ríki komu sér saman um skorinorða áskorun á sameiginlegum fundi sínum í París, þar sem þau afþakka hlutverk fórnarlambsins og kynna metnaðarfull markmið sín sem gætu orðið öðrum ríkjum fyrirmynd. Þessi ríki hafa lýst því yfir að þau vilji að samkomulag náist um að gera hagkerfi heimsins með öllu óháð kolefni, þannig að árið 2050 verði eingöngu notuð endurnýjanleg orka, auk þess sem stutt verði myndarlega við þau samfélög sem verða mest fyrir barðinu á loftslagsbreytingum. Þessi ríki hafa tekið forystu í því að stefna að öruggari heimi þar sem meðalhækkun hitastigs verði ekki meiri en 1,5°C. Yfirlýsing ríkjanna 43 er svo framúrskarandi að mati Climate Action Network, að hún lætur ýmis önnur ríki líta út eins og steingervinga.

 Danir og Sádi- Arabar fá skömm í hattinn

Þann 3. desember, á 4. degi ráðstefnunnar í París, urðu frændur okkar Danir þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera steingervingar dagsins. Í umsögn Climate Action Network kemur fram að fyrir ekki svo löngu síðan hafi Danir verið fyrirmynd annarra þjóða í loftslagsmálum, með metnaðarfull markmið og mikinn vöxt í nýtingu vindorku. Nú sé hins vegar öldin önnur. Danska stjórnin vilji toga í handbremsuna í viðræðunum í París á sama tíma og margar aðrar þjóðir vilji skipta í hærri gír til að flýta fyrir umbreytingunni yfir í framtíð með endurnýjanlega orku. Dönsku stjórninni hafi sem sagt fundist Danir vera of mikið í fararbroddi og hafi því ákveðið að trappa forystuna aðeins niður, beint niður. Ný ríkisstjórn landsins ætli að slaka á markmiðunum og skera niður fjárveitingar næsta árs til loftslagsmála úr 72 milljónum dollara í 39 milljónir, en sú fjárhæð dugi varla fyrir kaffibolla í Kaupmannahöfn.

Á 5. degi ráðstefnunnar voru Sádi-arabar yfirburðasigurvegarar í keppninni um steingerving dagsins, þar sem sendinefnd þeirra í París kvað gera sitt besta til að koma í veg fyrir að 1,5° markmiðið verði nokkurs staðar nefnt í samþykktum ráðstefnunnar, þrátt fyrir að ljóst sé að 2° hlýnun sé of mikið fyrir berskjölduð samfélög víða um heim. Indverjar og Kínverjar eru einnig nefndir til sögunnar í umfjöllun Climate Action Network um afrek þessa 5. dags, svo og hópur Arabaríkja sem styðji þegjandi og hljóðalaust við bakið á Sádi-aröbum, þó að fyrir liggi að aðgerðaleysi þeirra muni bitna mjög hart á þeirra eigin þegnum. Jafnir í öðru sæti þennan daginn voru Norðmenn, Bandaríkjamenn og Sádi-arabar, aftur. Þessir spaugarar séu að reyna að útvatna texta væntanlegrar samþykktar með því að fá nokkur aðalatriði færð úr megintextanum yfir í formálann. Það þurfi bara endilega einhver að segja þeim að þetta sé hreint ekkert fyndið. Á þessum 5. degi þótti Climate Action Network ástæða til að tilkynna líka um þriðja sætið í keppninni, en það féll líka Sádi-aröbum í skaut. Sendinefnd þeirra virðist gjarnan vilja læsa okkur öll inni í heimi þar sem hitinn hækkar um 3°C, þ.e.a.s. langt upp fyrir það sem vísindamenn telja óhætt. Þeir vilji koma í veg fyrir að landsmarkmið, þ.e.a.s. það sem kallað er INDC á þessum vettvangi, verði endurskoðuð fyrr en eftir árið 2018 og með því reyni þeir að koma í veg fyrir að önnur ríki geti skerpt á markmiðum sínum.

Á föstudaginn var voru Sádi-arabar enn og aftur steingervingar dagsins, að þessu sinni í félagi með Venesúela. Þessar þjóðir vilji ekki aðlaga hagkerfi sín breyttum aðstæðum, eða „þrífa hagkerfin sín“ eins og það er orðað í umsögninni, þar sem þau vilji halda áfram að græða á olíu, hvað sem það kostar. Hins vegar eigi Malasía og fleiri þróunarríki sérstakt hrós skilið fyrir að vilja gefa almenningi meiri aðgang að samningaferlinu.

Að vita og gera

Góðu fréttirnar í þessu öllu eru þær að þeir sem sitja við samningaborðin í París vita eflaust flestir hvað þeir þurfa að gera. Slæmu fréttirnar eru þær að sumir þeirra vilja samt alls ekki gera það. Og enn hefur ekki tekist að útvega nema rúmlega 10 milljarða dollara á 5 árum í sjóð til að vinna gegn loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra. Það tekur ríkisstjórnir heimsins hins vegar ekki nema 17 klukkutíma að eyða jafnhárri upphæð í styrki og niðurgreiðslur til kola-, olíu- og gasiðnaðarins. En nú hljóta dagar innantómra orða senn að vera liðnir og hver veit nema fulltrúar allra þjóða komi heim frá París með hin einföldu einkunnarorð Nike í farteskinu: „Just Do It“.