Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Steinar Bragi leikur sér að lesendum

Mynd: Forlagið / Forlagið

Steinar Bragi leikur sér að lesendum

29.11.2016 - 13:56

Höfundar

„Ímyndunarafl hans er takmarkalaust, hann sprengir áður óþekktar víddir sem bæði skelfa og hrella,“ segir Sigríður Albertsdóttir, gagnrýnandi Víðsjár, um smásagnasafn Steinars Braga, Allt fer.

Hún segir Steinar Braga vera óumdeilanlegan sagnameistara sem haldi lesandum við efnið í hverri sögunni á fætur annarri því hann búi yfir stílgáfu sem fáir aðrir hafi tök á. Þá sýnir hann lesendum sínum enga miskunn heldur neyðir þá til að horfast í augu við það sem aflaga fer í veröldinni, og fær þá til að hugsa hvort eða hvernig sé hægt að lagfæra heiminn.


Sigríður Albertsdóttir skrifar:

Nýjasta afurð rithöfundarins Steinars Braga er smásagnasafnið Allt fer. Það er mikið að burðum, telur 19 langar smásögur sem flestar, ef ekki allar, hverfast um þemað að allt fari að lokum. En það er misjafnt hvert er farið og hverjir fara; sumir láta sig líða burt í huganum en aðrir yfirgefa sína nánustu í bókstaflegri merkingu, stundum án þess að vita hvers vegna. Þær persónur neyðast bara til þess að fara, án þess að hafa nokkurn sérstakan skilning á því sjálfar hvers vegna. Innra með þeim býr djúpstæður óróleiki, þær gera sér ekki grein fyrir því hvar þær eiga að staðsetja sjálfar sig í veröldinni og ákveða því að fara.

Skýrt dæmi um slíkt er Haukur, önnur aðalpersónan í fyrstu sögu bókarinnar; Reykjavík er að vakna. Hann er staddur á flugvelli í ókunnri borg ásamt unnustu sinni en þau eru á leið heim til Íslands eftir margra mánaða flakk um heiminn. Hann hlakkar til þess að lenda í Keflavík en hugurinn ber hann víða. Það er í raun allt sem truflar; fólksmergðin á flugvellinum, flughræðslan, sem hann reynir að deyfa með lyfjum, og svo áttar hann sig skyndilega á því að hann er fyrir löngu hættur að heyra orð af því sem kærastan segir. Hún bara er þarna, þægileg staðfesting á því lífi sem hann  í raun og veru þráir. Hún er klár og skemmtileg og hann elskar hana en einhver óutskýranleg kennd knýr hann til að vera eftir á vellinum og horfa á eftir henni fara.

Einsemd og undirliggjandi órói

Sagan lætur ekki mikið yfir sér en hún er átakanleg því einsemd mannsins sker djúpt í hjartað. Höfundur dregur upp mynd af samrýmdu og ástföngnu pari sem ekki ætti að láta neitt aftra sér frá því að vera saman. En á flugvellinum upplifir Haukur framandleika sjálfs sín og annarra svo sterkt að að hann hreinlega neyðist til þess að endurskoða líf sitt burtséð frá þeim sem hann virðist tilneyddur til að særa.

Sama gildir um söguna Himininn yfir Þingvöllum nema þar er undirliggjandi órói þó í upphafi sé brugðið upp kyrrlátri mynd af ungu pari sem er að koma sér fyrir á notalegum grasbala á Þingvöllum. Þau spjalla saman á hversdagslegum og afslöppuðum nótum; reykja og horfa síðan þögul í kringum sig. En það er ákveðin fjarlægð á milli þeirra sem pilturinn áttar sig ekki á og í hægri stígandi splundrast allt að lokum. Orð ná ekki að lagfæra það sem er greinilega horfið, samræðurnar magnast stig af stigi og enda í martröð því hvað er verra fyrir ástfanginn pilt en að heyra orð eins og þessi: „Ég elska þig ekki, gerði það svo sannarlega ekki á því augnabliki sem þessi mynd er tekin og ég mun aldrei elska þig!“

Í þessum tveimur sögum er tekist á við margt; væntingar manna, trú, ást, svik, samband og sambandsleysi en það sem fyrst og síðast æpir á lesanda af síðum bókarinnar er einmanaleikinn. Fólk fálmar áfram í leit að einhverju áþreifanlegu en æ ofan í æ grípur það í tómt. Í smásögum Steinars Braga kynnumst við fólki sem aldrei nær saman, við kynnumst fólki sem hefur náð saman en áttar sig svo kannski á því að einn saklaus koss í París getur leitt til þess að allt fer; hjónabandið og hin svokallaða þægilega tilvera.

Engin svör frá höfundi

Steinar Bragi leikur sér að lesendum sínum. Ástin spilar stórt hlutverk og þá einkum ást sem ekki gengur upp. En sumir ná ásættanlegri lendingu eins og Emil í sögunni Að spila Nintendo Wii á réttargeðdeildinni á Sogni. Honum tekst að klúðra æskuástinni sinni, legst í undarlegt heimshornaflakk, kemur heim, giftist Hönnu og lifir hamingjusamur til æviloka þó frekar þreyttur eins og segir í sögunni: “… bara kingum áttrætt, búinn að prófa margt einu sinni og ekkert eftir nema að kveðja. Hann dó úr lungnabólgu. Líf hans var hamingjusamt, án þess að vera beinlínis eftirsóknarvert, og í ósigrunum eygði hann tækifæri en í sigrunum tapaði hann.“ Í lokaorðum sögunnar stendur lesandi frammi fyrir vissri spurningu: „ Var lending Emils ásættanleg?“ Því svarar höfundur að sjálfsögðu ekki.

Umsnýr hlutskipti misnotaðra kvenna

Samskipti manna á milli er það sem allt snýst um í Allt fer eftir Steinar Braga. Allir eru að leita að hamingjunni en fáir eða enginn virðist vita hvar hún býr eða hvernig ber að höndla hana. Og leitin að hamingjunni ber menn víða. Ævintýraþrá leiðir ungan mann til Evrópu í sögunni Hvíti geldingurinn  en það finnst mér vera ein áhrifamesta saga bókarinnar. Sögupersónan lætur glepjast af gylliboðum araba og endar sem geltur þræll í kvennabúri. Geldingunni er lýst í smáatriðum sem og því innihaldslausa lífi sem tekur við í kjölfarið. Persónan hefur verið svipt karlmennskunni, hefur enga löngun til kvenna og er því gert að þjóna konum sem bíða eigenda sinna. Á hann er litið sem viljalausan einstakling, honum er nauðgað, hann er svívirtur og á sér hvorki drauma né þrár. Lífi hans er lokið.

Hér umsnýr Steinar Bragi hluskipti misnotaðra kvenna þessa heims yfir á karlmenn á ótrúlega efitirminnilegan og dapurlegan hátt.  Og hann gerir það afar vel. Svo segir í sögunni: „Klof hans var dofið, limurinn samanskroppinn og daufblár fölvi yfir honum, næstum eins og hann væri dauður. Þar fyrir innan var ekkert, óhugsandi og óskiljanlegt tóm sem þó virtist hafa tekið yfir alla veru hans.“ Hér er allt tekið í burtu, mennska, frelsi og lífsgleði.

Illskan tekur öll völd

Steinar Bragi sýnir lesendum sínum enga miskunn. Hann neyðir þá til þess að horfast í augu við það sem aflaga fer í veröldinni og fær þá til þess að hugsa um hvernig og hvort hægt sé  að lagfæra heiminn, hvenær og þá hvernig? Hann á það til að vera groddaralegur, sagan Kólfurinn er til vitnis um það. Hún er byggð upp í spennusagnastíl en endar í fullkomnum hryllingi þar sem engin von virðist búa. Illskan hefur tekið öll völd og maðurinn á sér engrar viðreisnar von í að því er virðist stríðshrjáðum heimi.

Steinar Bragi er óumdeilanlegur sagnameistari sem heldur lesanda við efnið í hverri sögunni á fætur annarri einfaldlega vegna þess að hann býr yfir stílgáfu sem fáir aðrir hafa tök á. Ímyndunarafl hans er takmarkalaust, hann sprengir áður óþekktar víddir sem bæði skelfa og hrella. Eitt er víst; Þótt margir yfirgefi sjálfa sig og aðra í Allt fer eftir Steinar Braga fer texti höfundar ekki svo glatt úr hugskoti lesanda.“