Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Steinaborg í Berufirði brann til grunna

06.02.2015 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Slökkviliðin á Djúpavogi og Breiðdalsvík voru kölluð út að bænum Steinaborg á Berufjarðarströnd í kvöld en húsið var þá alelda. Þangað flutti ungur maður, Bergur Hrannar Guðmundsson, í sumar eftir að enginn hafði búið á bænum í hátt í hálfa öld eins og kom fram í Landanum í síðasta mánuði.

Útkallið barst slökkviliði Djúpavogs klukkan 17:27 og það bað strax um aðstoð frá slökkviliðnu á Breiðdalsvík sem er nær bænum. Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum á Austurlandi komst húsráðandi út úr húsinu með hund sinn en óvíst er með örlög kattarins.

Slökkvilið átti erfitt með að komast að á slökkvibílum vegna þess hve vegurinn heim að bænum er vondur. „Það er í raun enginn vegur. Það er bara túnið og slóðin á því er drullu- og klakasvað,“ segir Kári Snær Valtingojer, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi. Þegar loksins tókst að komast að húsinu var í litlu að slökkva. Það sem brunnið gat hafði fuðrað upp í miklu hvassvirðri. „Við vorum ekki að fara þennan slóða á bílunum því húsið var farið. Stíf norðvestan og gekk á með éljum. Þetta er gamalt timburhús og einangrað eftir því og hverfur um leið. Við reyndum að tryggja vettvang með því að hemja lausar járnplötur sem fuku og leita að eigum sem húsráðandi hafði hent út. Hann fékk síðan gistingu á nálægum bæ,“ segir Kári.

Hægt er að horfa á Landainnslagið hér

Svona leit bærinn út: