Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stefnuyfirlýsingin opin til túlkunar

11.01.2017 - 08:11
Mynd: RÚV / RÚV
Birgir Guðmundsson, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri segir mikið svigrúm til túlkunar í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar. Það geti einkennt samstarf í ríkisstjórn hvað stefnuyfirlýsingin sé lítill leiðarvísir fyrir ráðherrana.

„Þannig að ráðherrarnir sem eru þá ábyrgir hver fyrir sínum málaflokki hafa ekki sína stjórnarskrá til að byggja á nema mjög almenna,“ sagði Birgir í viðtali við Sunnu Valgerðardóttur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Það er mjög mikið svigrúm til túlkunar sem mun skapast hjá hverjum og einum og það á eftir, held ég, að einkenna samstarfið því að nú þarf stjórnin og stjórnarflokkarnir að diskútera út og koma sér saman um allskyns mál.“

Birgir segir að þó menn nái einhverjum samnefnara í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum þá séu leiðirnar almennt orðaðar. „Það eru einhver tiltekin málefni sem á að gera, en það er í grunninn samt sett í viðræðuferli, endurskoðunarferli og kanna þetta í rólegheitunum. Flest málin eru þannig, sem er kannski eðlilegt. En það vantar meiri vörður um það nákvæmlega hvað á að gera, til hvers og með hvaða hætti.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild í spilaranum fyrir ofan. 

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og tilvonandi heilbrigðisráðherra, sagðist ánægður með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann sagði hann skýra yfirlýsingu um það hvert ríkisstjórnin vilji stefna og hvað hún vilji gera og hvernig. 

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og tilvonandi fjármálaráðherra, sagði í Morgunútvarpinu að unnið verði með stjórnmálaflokkum í minnihluta á þingi um sem flest mál. Eðlilegt sé að ríkisstjórn byrji að undirbúa mál, sum í samráði og önnur þannig að minnihlutinn komi sem fyrst að þeim, bæði minnihluti á þingi og hagsmunaaðilar. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV