Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stefnt að uppbyggingu jarðvangs á Reykjanesi

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Samningur um uppbyggingu jarðvangs á Reykjanesi auk nýrrar þjónustumiðstöðvar við Reykjanesvita verður undirritaður í dag. Jarðvangurinn er samstarfsverkefni sem byggist á því að nýta sérstöðu svæðisins og einstaka jarðsögu þess, svo sem Atlantshafshrygginn og flekaskilin, til verðmætasköpunar.

Bláa lónið hf. og Reykjanes Global Unesco Geopark standa að baki verkefninu sem nær yfir allt land Grindarvíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga. Auk þess hefur Bláa lónið hf. stofnað til félags með eina núverandi ábúanda við Reykjanesvita, Grétu Súsönnu Fjeldsted.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir að lengi hafi verið skortur á þjónustuaðstöðu á vestanverðu Reykjanesi en verði nú bætt úr. Bláa lónið ætli auk þess að aðstoða við merkingar svæðisins. Þá muni starfsmaður á þeirra vegum hafa umsjón með svæðinu í samstarfi við Jarðvanginn.

Í fréttatilkynningu frá Reykjanes Global Unesco Geopark segir að markmið samstarfsins sé meðal annars að „styrkja Reykjanesið sem áfangastað, stuðla að sjálfbærri nýtingu, vinna að bestu aðferðum til uppbyggingar í sátt við náttúru, bæta þekkingu, viðhorf og verndarstöðu jarðminja á svæðunum, hvetja til nýjunga í náttúrutengdri sköpun og draga fram og viðhalda menningararfleifð svæðanna.“

Lögð sé áhersla á að koma sérstöðunni á framfæri með það að markmiði að upplýsa gesti um jarðfræðiarfleifðina ásamt sögu og menningu svæðisins.

„Um leið er reynt að vekja samfélagið til umhugsunar um þau tækifæri sem felast í nærumhverfinu til að styrkja stoðir fjölbreyttrar atvinnustarfsemi, svo sem ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og fleira.“

Fanney Hólmfríður Kristjánsdóttir