Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stefnt að opnun vatnsverksmiðju á næsta ári

09.11.2017 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Félagið Vatnsworks Iceland ehf. stefnir að því að hefja framleiðslu í nýrri vatnsverksmiðju á Borgarfirði eystra árið 2018. Unnið er að lokafjármögnun verkefnisins og útfærslum í verksmiðjuhúsi, og varðandi tækjabúnað.

Indverski fjárfestirinn Pawan Mulkikar, sem um tæplega tveggja ára skeið hefur unnið að undirbúningi vatnsátöppunarverksmiðju á Borgarfirði, mætti á fund sveitarstjórnar Borgarfjarðarhrepps um miðjan október og skýrði frá stöðu mála varðandi verkefnið.

Fjárfesting upp á rúmar 200 milljónir króna

Fyrirhuguð vatnsverksmiðja á að rísa í landi Geitlands og hefur Borgarfjarðarhreppur látið gera breytingu á skipulagi jarðarinnar fyrir iðnaðarsvæði. Þar er gert ráð fyrir framkvæmdum við byggingu verksmiðju, en vatnstaka verður í landi sveitarfélagsins skammt frá. Fram hefur komið hjá Mulkikar að fjárfest verði fyrir samtals tvær milljónir dollara í verkefninu, eða um 210 milljónir króna á núvirði.

Með takmarkaðar heimildir til að fjárfesta á Íslandi

Arngrímur Viðar Ásgeirsson, hluthafi í Vatnsworks Iceland ehf., segir það hafa reynst afar flókið og tímafrekt að vinna úr allskyns lögfræðilegum málum þar sem Mulkikar búi og starfi á Indlandi. Hann hafi því takmarkaðar heimildir til að fjárfesta hér á landi og ekki sé beinn viðskiptasamningur á milli landanna. Arngrímur segir að þeir séu afar einbeittir í að koma þessu verkefni af stað og hann segist sjálfur fullviss um að verksmiðjan verði að veruleika þó að enn eigi eftir að leysa úr nokkrum málum áður en byrjað verði af fullum krafti.

Bygging verksmiðjunnar hefjist snemma á næsta ári

Hann segir skipulagsvinnu lokið og búið sé að hanna húsnæði og fyrstu vörulínuna. Verið sé að leita tilboða í byggingu 900 fermetra verksmiðjuhúss og tækjabúnað sem þegar hafi verið valinn. Áætlað er að verksmiðjan noti um einn til tvo sekúndulítra af vatni og Arngrímur segir að vatnssýni, sem sent hafi verið til greiningar, hafi komið vel út. Í heild sé staða verkefnisins því tiltölulega góð og stefnt sé að því að hefja framkvæmdir snemma á nýju ári. Í máli Pawan Mulkikar, á fundi sveitarstjórnar, kom fram að áætlað sé að framleiðsla hefjist í verksmiðjunni árið 2018.