Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stefnt að frumvarpi um veggjöld í lok mánaðar

05.02.2019 - 11:18
Jón Gunnarsson, varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar býst við að samgönguráðherra leggi fram lagafrumvarp í lok mánaðar eða marsmánuði sem rammar inn smáatriðin og hvernig veggjöldum verði háttað. Formaður Samfylkingar og minnihluti nefndarinnar segja veggjöldin ótímabær.

Sveitarstjórnarfólk og íbúar á landsbyggðinni skiptast í tvær fylkingar í afstöðu til veggjalda. Bæjarstjórar í Bolungarvík og Fjarðabyggð eru ekki fylgjandi gjaldtöku í jarðgöngum, en forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði er fylgjandi þeim. Vörubílstjóri keyrir daglega í gegn um alla gjaldtökustaðina á höfuðborgarsvæðinu. Íbúi í Bolungarvík segir þau sjálfsagðan hlut.

Stjórnarandstaðan gagnrýnir veggjöldin harðlega

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingar, sagði á Alþingi í gær að veggjöldin leggist lægst á tekjulága og minnihluti umhverfis- og samgöngunefndar telur ótímabæra og skyndilega umræðu meirihlutans um veggjöld hafa komið í veg fyrir faglega vinnu í nefndinni. Minnihlutinn gagnrýnir stjórnvöld fyrir að vanrækja samgöngur á uppgangstímum. Síðari umræða um samgönguáætlanir hefst á morgun. 

Samgönguáætlun endurskoðuð fljótlega

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar og talsmaður meirihlutans um samgönguáætlun, sagði í fréttum RÚV í gær að samgönguráðherra leggi fram lagafrumvarp í lok mánaðar sem rammar inn smáatriðin og hvernig gjaldtöku verði háttað. 

„Og þá náum við vonandi að afgreiða það fyrir vorið og þurfum síðan að endurskoða samgönguáætlun strax í haust á grundvelli þess.”

Spurður hvort hann telji að þessar róttæku breytingar á samgöngukerfi landsins nái fram að ganga segir Jón að hann vonist til þess. 

„Það er búið að liggja mikið yfir þessu og ég sé ekki betri lausn til þess að stíga þessi mikilvægu skref sem nauðsynleg eru til þess að tryggja hér umferðaröryggi og eðlilegt flæði umferðar um vegina. Við erum langt á eftir þjóðum sem við berum okkur saman við. Tollur hér af slysum fyrir samfélagið er allt of hár og við þessu verður að bregðast. Þessi leið sem við römmum inn í meirihlutanum er mjög stórt skref í þá átt.”

Möguleiki á gjaldtöku í jarðgöngum

Varðandi mögulega gjaldtöku í göngum, eins og Bolungavíkurgöngum, segir Jón að ástæðan fyrir þeim möguleika sé að gæta jafnræðis á meðal landsmanna. 

„Okkur finnst eðlilegt að það séu allir sem taki þátt í þessu átaki, en einnig til að geta haldið áfram jarðgangaáætlun sem að öðrum kosti er augljóst miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir, að það muni annars verða töf á því.”

Óljósir veggskattar á almenning 

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir þessi áform. 

„Hér er um grundvallarbreytingu að ræða. Eitt eru vegtollar, þar sem verið er að stytta leiðir eða með einhvers konar umhverfisstýringu, hitt er að innheimta vegaskatta af fólki og gefa engin fyrirheit um það hvert fjármunirnir fara. Þá þarf náttúrulega að skoða á hvaða hópa þetta leggst þyngst, hvar á landinu, hvaða aldurshópa og tekjuhópa. Hér er verið að breyta úr kerfi þar sem við höfum hingað til fjármagnað þetta með þeim sem geta borgað en ekki þeir sem geta notað. Ef við færum í svipaðar grundvallarbreytingar á heilbrigðis- eða menntakerfinu, hvert værum við að fara þá?”