Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Stefnir Reykjavíkurborg vegna mismununar

27.01.2013 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Kona sem leigir íbúð hjá Öryrkjabandalaginu hefur stefnt Reykjavíkurborg fyrir að mismuna fólki eftir búsetu. Öryrkjabandalagið segir að Reykjavíkurborg mismuni íbúum og brjóti lög og stjórnarskrána.

Í tilkynningu frá Öryrkjabandalaginu, sem styður konuna í málaferlunum, segir að Reykjavíkurborg neiti að greiða henni sérstakar húsaleigubætur á þeim forsendum að hún leigi húsnæði hjá Öryrkjabandalaginu en ekki hjá Félagsbústöðum eða á almennum markaði.

Þar segir ennfremur að bandalagið hafi allt síðan árið 2009 barist fyrir því að reglum Reykjavíkurborgar verði breytt þannig að þeir sem leigi húsnæði hjá Öryrkjabandalaginu eigi rétt á sérstökum húsaleigubótum. Bent er á að innanríkisráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu fyrir tveimur árum að reglur borgarinnar væru í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og til þess fallnar að mismuna fólki. Ráðuneytið hafi þá beint þeim tilmælum til borgarinnar að hún breytti reglum sínum, en hún hafi ítrekað daufheyrst við því.

Öryrkjabandalagið segir að Reykjavíkurborg mismuni íbúum sínum með ólögmætum hætti og brjóti bæði gegn stjórnarskránni og stjórnsýslulögum.