Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stefnir í hráslagalegt kosningaveður

28.10.2016 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Veðurstofan býst við leiðindaveðri á morgun, kjördag, austan 15-23 metrum á sekúndu vestan og sunnan til á landinu í fyrramálið.

 

Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur telur samt ekki hættu á að kjósendur komist ekki á kjörstað á morgun. Veðrið verði einna verst sunnan og vestanlands fyrri part dags, stormur og hvassviðri með mikilli rigningu, en síðan upp úr hádegi fer að draga úr vindi og sömuleiðis úrkomu og þá ætti að vera betra fyrir kjósendur að koma sér á kjörstað. Seinni part dags fer veðrið svo að versna fyrir norðan og austan, sömuleiðis með úrkomu.

Birta segir að svo gæti farið að illa færi um atkvæðin í flugi frá Austurlandi til Akureyrar annað kvöld, því búist er við nokkurri ókyrrð í lofti, þó ekki svo mikil að ekki verði hægt að fljúga í því veðri sem spáð er.

Ekki virðist mikil hætta á að færð spillist á landi, því nokkuð hlýtt loft er á ferðinni, snemma um morguninn gæti verið slydda eða snjókoma, en síðan breytist úrkoman um allt land í rigningu, þannig að færð ætti ekki að spillast, þegar koma þarf kjörgögnum á talningarstað.

 

Jón Þór Víglundsson
Fréttastofa RÚV