Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Stefnir í 72 lista í kosningum

Mynd með færslu
 Mynd:
72 framboðslistar gætu verið í boði á landinu öllu í þingkosningum eftir tæpar tvær vikur. Aðstandendur sex framboðslista í Suðvesturkjördæmi hafa fengið frest til morguns til að lagfæra lista meðmælenda. Allir aðrir listar hafa verið úrskurðaðir gildir.

Yfirkjörstjórnir í flestum kjördæmum úrskurðuðu í dag um lögmæti þeirra framboðslista sem var skilað inn áður en frestur rann út. Nú er ljóst að listarnir verða ellefu í Suðvesturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Þeir verða tólf í Norðvesturkjördæmi og þrettán í Reykjavíkurkjördæmi norður. Framboðslistarnir gætu orðið fjórtán í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þar er búið að úrskurða átta lista gilda og sex fengu frest til hádegis á morgun til að bæta við undirskriftum meðmælenda í stað þeirra sem reyndust ógildar.

Katrín Theodórsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir að það hafi komið á óvart hversu vel hafi gengið að yfirfara undirskriftir og úrskurða lista gilda. „Því að við áttum svo sem von á því, þegar allur þessi fjöldi framboða er skoðaður, að þá átti ég ekki von á því að það myndi ganga svona vel.“

 

Tíundi hver skrifaði undir á tveimur eða fleiri listum

Öll listaframboð skiluðu inn nægilegum fjölda meðmælenda. „En það var í kannski flestum tilvikum, svona ógildingartilvikum, að þá voru það að einstaklingar höfðu mælt með fleiri framboðum en einu. Svo var eitthvað um að fólk ætti ekki lögheimili í kjördæminu.“

Mikið bar á því að fólk hefði skrifað undir hjá fleiri en einu framboði, sem leiddi til ógildingar undirskriftar á báðum listum. Þetta átti til dæmis við um rúmlega tíundu hverja undirskrift í Norðvesturkjördæmi. 

 

Einstaklingsframboð ekki í takt við lög

Yfirkjörstjórnir um allt land úrskurðu einstaklingsframboð ógild. Katrín segir að það hafi verið óumflýjanlegt. „Ástæðurnar eru einfaldlega þær að þau teljast ekki uppfylla skilyrði laga um kosningar til Alþingis. Bæði eru þessi framboð ekki borin fram af stjórnmálasamtökum og þau höfðu ekki tilskilinn meðmælendafjölda, eða í stuttu máli engan.“

Þeir sem ætluðu í einstaklingsframboð hyggjast kæra þessa niðurstöðu.

 

Fimmtán hreyfingar í framboði

11 flokkar ætla að bjóða fram í öllum kjördæmum. Það eru Framsóknarflokkurinn, Vinstri græn, Hægri grænir, Lýðræðisvaktin, Sjálfstæðisflokkurinn, Regnboginn, Dögun, Píratar, Flokkur heimilanna, Björt framtíð og Samfylkingin. 

Að auki skilaði Landsbyggðarflokkurinn inn lista á Norðvesturkjördæmi. Húmanistaflokkurinn og Alþýðufylkingin bjóða fram í báðum Reykjavíkurkjördæmum. 

Búið er að staðfesta alla lista á landinu, nema sex í Reykjavíkurkjördæmi suður.