Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stefnir í 17 framboð í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd: AP Images - RÚV
Fjórtán flokkar hafa kynnt frambjóðendur eða fullskipaða framboðslista til borgarstjórnarkosninga í næsta mánuði. Þrjár hreyfingar til viðbótar hyggja á framboð þótt þau séu mislangt komin. Ef allir flokkarnir bjóða fram verða framboðin rúmlega tvöfalt fleiri en í síðustu borgarstjórnarkosningum, þegar þau voru átta.

Sjö framboð hafa tilkynnt lista

Þeir sem tilkynnt hafa fullskipaða lista í Reykjavík eru: Alþýðufylkingin, Frelsisflokkurinn, Höfuðborgarlistinn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstrihreyfingin-grænt framboð og Viðreisn. 

Sjö hafa kynnt fólk í efstu sætum

Flokkur fólksins hefur kynnt fyrstu tíu sæti síns lista, sem Kolbrún Baldursdóttir leiðir.

Ingvar Mar Jónsson leiðir lista Framsóknarflokksins, sem hefur kynnt fyrstu sex sætin á sínum lista.

Íslenska þjóðfylkingin hefur kynnt þrjú efstu sætin á sínum lista og mun Guðmundur Þorleifsson leiða hann.

Kallalistinn hefur kynnt fimm efstu sætin á sínum lista með Karl Th. Birgisson í fararbroddi.

Vigdís Hauksdóttir skipar efsta sætið á lista Miðflokksins og hefur flokkurinn tilkynnt fyrstu ellefu sætin.

Píratar hafa ekki tilkynnt endanlegan lista. Í prófkjöri þeirra í Reykjavík 26. mars hafnaði Dóra Björt Guðjónsdóttir í efsta sæti þar sem nítján buðu sig fram.

Framboð Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúa fékk nafnið sitt í dag, Borgin okkar - Reykjavík. Sveinbjörg leiðir listann en ekki hefur verið raðað í önnur sæti. „Við erum ekki búin að manna öll sætin og það eru umræður um niðurröðun en við erum komin með fólk til að fylla listann,“ segir Sveinbjörg. Þau stefna að því að kynna annað sæti listans á miðvikudaginn, tíu efstu sætin á föstudaginn og restina af listanum 1. maí. Sveinbjörg Birna var kjörin í borgarstjórn fyrir Framsókn og flugvallarvini 2014 en sagði sig af listanum í fyrra.

Þrjú framboð eiga eftir að kynna frambjóðendur

Sósíalistaflokkurinn ætlar að bjóða fram í Reykjavík og Kópavogi og segir Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdarstjórnar flokksins, að það standi til að birta lista 1. maí. 

Kvennaframboðið hyggst einnig bjóða fram í Reykjavík. Þetta staðfestir Þóra Kristín Þórsdóttir, ein af skipuleggjendum framboðsins. Hún segir að framboðið muni ekki hafa neina ákveðna forystu. Framboðið muni fylgja öllum reglum við kynningu og stefnt er að því að birta númeraðan lista með oddvita fljótlega.

Gunnar Kristinn Þórðarson, einn af skipuleggjendum Karlaframboðs í Reykjavík, segir að ekki sé kominn listi fyrir framboðið. Stofnfundur flokksins verður haldinn á miðvikudaginn þar sem ákveða á nafn og næstu skref. Gunnar segir að nokkrir einstaklingar hafi sýnt áhuga á því að vera á lista framboðsins en ekki séu komnar neinar undirskriftir frá meðmælendum enn þá.

Eftir fjölgun borgarfulltrúa í 23 þarf á bilinu 23 til 46 frambjóðendur á hvern lista og auk þeirra þarf hvert framboð að safna undirskriftum minnst 160 meðmælenda.