
Stefna að því að skima þúsund á dag fyrir COVID-19
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við fréttastofu að skimunin sé hugsuð fyrir allan almenning, hvort sem fólk finni fyrir einkennum eða ekki. Ekki verði forgangsraðað eftir því hvort fólk finni fyrir einkennum eða ekki, ef fólk er veikt væri betra að hafa strax samband við heilsugæslu í stað þess að bíða eftir að komast að í skimun.
Skimunin fer fram í Turninum við Smáratorg í Kópavogi. Aðspurð um það hvernig skimunin fari fram segir Þóra að fólki sé vísað inn í mismunandi herbergi samkvæmt tímapöntun. Þar tekur á móti því hjúkrunarfræðingur eða annar heilbrigðisstarfsmaður. Fólk eigi því ekki að þurfa að safnast saman á svæðinu á meðan það bíður skimunar þar sem það kemur á fyrir fram ákveðnum tíma. Þetta sé því ekkert hættulegra en að fara í matvöruverslun, ef horft er til mögulegrar smithættu frá öðrum.
„Flestir sem koma í skimun hafa aldrei fundið fyrir einkennum og eru því líklega ekki smitandi. Það sama á við alla starfsmenn í húsinu, hvort sem þeir starfa við skimanir eða ekki. Það er því ekki meiri hætta á ferðum í húsinu en annars staðar í borginni þar sem fólk kemur saman,“ segir í tilkynningu.
Ekki er ljóst hversu langan tíma tekur að fá út úr skimun, en niðurstöðurnar getur fólk nálgast á sínu svæði á vefnum heilsuvera.is, hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar.