Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stefna að sjálfbærni í Berufirði

12.11.2018 - 11:24
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn
„Við vorum búin að vera að leita að jörð í svona fimm ár en það var erfitt að finna eitthvað sem hentaði okkur," segir Pálmi Einarsson iðnhönnuður sem er nýlega fluttur í Gautavík í Berufirði ásamt fjölskyldu sinni. Þar framleiðir hann leikföng og gjafavöru og stefnir á alls kyns sjálfsbæra framleiðslu og ræktun.

„Markmiðið er að verða sem mest sjálfbær um mat fyrir okkur fjölskylduna. Stunda svona sjálfsþurftabúskap og selja það sem umfram er beint frá býli," segir eiginkona hans Oddný Anna Björnsdóttir sem var í fyrstu ekki alveg sannfærð um að Gautavík væri rétta jörðin fyrir þau.

„Ég spurði Pálma hvort hann ætlaði að fara með mig til Langtíburtistan, mér fannst þetta allt of langt frá Reykjavík," segir hún en sér ekki eftir því að hafa skipt um skoðun. Viku eftir að Pálmi sendi henni tengil á fasteignaauglýsinguna voru þau búin að gera bindandi kauptilboð og í sumar fluttu þau austur með fjölskylduna og fyrirtækið sitt, Geisla. 

thorgunnuro's picture
Þórgunnur Oddsdóttir
dagskrárgerðarmaður
eddasif's picture
Edda Sif Pálsdóttir