Stefán Karl fékk tré frá Þjóðleikhúsinu

Mynd með færslu
 Mynd:

Stefán Karl fékk tré frá Þjóðleikhúsinu

08.09.2017 - 13:07

Höfundar

Stefán Karl Stefánsson, leikari, gróðursetti í gær tré í Stefánslundi í Hellisgerði í Hafnarfirði í gær. Tréð er nokkuð merkilegt því það er gjöf frá Þjóðleikhúsinu og er tileinkað leikaranum.

Ari Matthíasson, þjóðleikhússtjóri, óskaði formlega eftir því við umhverfis-og framkvæmdaráð í lok síðasta mánaðar að fá að gróðursetja tréð í lok síðasta mánaðar og tileinka það Stefáni Karli.

Í bréfi þjóðleikhússtjóra kemur fram að Þjóðleikhúsið muni standa allan straum af gróðursetningunni og Ari leggur til að gróðursettur verði Japanreynir. Niðurstaðan varð þó að Stefán Karl fékk Kínareyni eða Sorbus Vilmorinii

Stefán Karl mætti svo sjálfur í Hellisgerði í gær og gróðursetti það. „Ég er hrærður og stoltur yfir þessari fallegu gjöf Þjóðleikhússtjóra til mín og ég vona svo sannarlega að fólk muni horfa á lundinn í framtíðinni og muna mig eins og ég er,“ skrifar Stefán á Facebook-síðu sinni.

Stefán Karl hefur glímt við krabbamein undanfarna mánuði og í sumar greindi Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir frá því að það væri langt gengið og lífslíkur hans verulega skertar.

Stefán ákvað þó að láta það ekki aftra sér heldur leikur nú meðal annars í sýningunni Með fulla af vasa af grjóti á stóra sviði Þjóðleikhússins. Þetta er í þriðja sinn sem Stefán og Hilmir Snær Guðnason leika í uppfærslunni af þessu verki en lokasýningin verður í beinni útsendingu á RÚV þann 1. október.

Mynd: RÚV / RÚV