Starfsmönnum ekki boðin endurráðning

20.05.2015 - 22:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fötluðum starfsmönnum þjónustuvers ferðaþjónustu fatlaðra, sem sagt var upp störfum við flutning ferðaþjónustunnar til Strætó, hefur ekki verið formlega boðið starf hjá Strætó að nýju.

Samkvæmt úttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar voru það mistök að segja starfsfólkinu upp. Fötluðum starfsmönnum, sem unnið höfðu hlutastarf hjá þjónustuverinu, var sagt upp og tjáð að hlutastörf væru ekki í boði. Þannig hafi glatast áralöng reynsla og mikilvæg þekking á þörfum og aðstæðum notenda.

Í skýrslunni segir meðal annars uppsagnir hafi vomað yfir frá í október 2013. Á miðju ári 2014 var svo öllu starfsfólki ferðaþjónustunnar sagt upp. Starfsfólk þjónustuversins spurði hvort ekki væri hægt að flytja það til í starfi en því var neitað. Einnig spurði það ítrekað hvort möguleiki væri á hlutastarfi eftir breytingar og því var neitað, þrátt fyrir að viðkomandi stjórnanda væri fullkunnugt um að fólkið gæti ekki, fötlunar sinnar vegna, sinnt fullu starfi. Sumir starfsmannanna höfðu allt að 30 ára starfsreynslu.

Síðar hafa slík hlutastörf verið auglýst hjá Strætó. Formaður stjórnar Strætó sagði í fréttum RÚV í gær að haft hefði verið samband við suma starfsmennina, en þeir ekki sóst eftir að koma aftur. Að sögn málefnafulltrúa landssambands fatlaðra hefur Strætó ekki boðið þeim starf sitt að nýju. Hann segir mikilvægt að það verði gert.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi