Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Starfsmenn nýttu ekki eftirlitskerfi

03.07.2013 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Áhættustýringu Íbúðalánasjóðs var verulega ábótavant og starfsmenn skorti þekkingu til að nýta eftirlitskerfið og áhættustýringaraðferðir sem komið var upp fyrir sjóðinn.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis vegna Íbúðalánasjóðs. Þar segir að fyrir breytingar á fjármögnun og útlánum sjóðsins árið 2004 hafi engin formleg áhættustýring verið innan sjóðsins, enda takmörkuð þörf fyrir slíkt.

Breytt fyrirkomulag hafi kallað á áhættustýringu vegna vaxtaáhættu sjóðsins sem hafi aukist, einkum uppgreiðsluáhætta. Alþingi mælti því fyrir um að sjóðurinn skyldi setja sér áhættustýringarstefnu. Íbúðalánasjóður fékk sænska ráðgjafafyrirtækið Capto til að setja slíka stefnu fram og koma upp áhættustýringarkerfi.

Þrátt fyrir þetta var áhættustýringu sjóðsins verulega ábótavant, segir rannsóknarnefndin. Svo virðist sem starfsmenn sjóðsins hafi skort þekkingu til að nýta sér eftirlitskerfi og áhættustýringaraðferðir. Capto sá um útreikningana til haustsins 2005, en starfsmenn Íbúðalánasjóðs sáu um að túlka niðurstöðurnar í skýrslum til eftirlitsaðila. Sú túlkun hafi oft verið röng og útreikningar Capto ekki nýttir að fullu.

Síðar segir í skýrslunni að eftir að starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafi sjálfir tekið við útreikningunum, hafi þeir einfaldað stóran hluta af útreikningum Capto. Það hafi orðið til þess að reiknaðir áhættumælikvarðar hafi ekki endurspeglað raunverulega áhættu Íbúðalánasjóðs. Sumir útreikningar í skýrslum til eftirlitsaðila hafi verið rangir og oft endurteknir úr eldri skýrslum. Það sem hafi gert illt verra, segir í skýrslunni, er að Fjármálaeftirlitið sem fékk skýrslurnar hafi ekki virst taka eftir þeim.