Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Starfsleyfi Thorsil stendur

11.07.2017 - 15:29
Mynd með færslu
Thorsil áætlar að reisa kísilverksmiðju í Helguvík.  Mynd: Úr matsskýrslu Mannvits
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í dag kæru á veitingu starfsleyfis til Thorsil ehf. sem áformar að reisa kísilverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

Kæran var lögð fram af Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, Landvernd, Landgræðslu- og umhverfisverndarsamtökum Íslands og Ellerti Grétarssyni, íbúa í Reykjanesbæ.

Í tilkynningu sem kærendur sendu frá sér í byrjun maí, þegar starfsleyfið var kært, segir meðal annars að ekki hafi verið metinn sá kostur að verksmiðjan yrði smærri í sniðum. Þá segir að það hafi vakið furðu þar sem ívilnanasamningur sá sem íslenska ríkið veitti Thorsil, auk samninga fyrirtækisins við Landsvirkjun um raforkukaup, geri allir ráð fyrir helmingi minni verksmiðju en þeirri sem Umhverfisstofnun veitti leyfi fyrir. „Að mati kærenda hefði Skipulagsstofnun átt að vísa frummatsskýrslu Thorsil frá vegna þessara ágalla. Ekki voru því forsendur til útgáfu starfsleyfisins,“ segir í tilkynningunni.

Umhverfisstofnun tók þá ákvörðun 6. febrúar síðastliðinn að veita Thorsil ehf. starfsleyfið. Kærendur kröfðust þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Þá kröfðust þeir þess að gerð yrði krafa um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða leyfis eða frestun réttaráhrifa þess.

Í úrskurðinum segir meðal annars að ekki verði talið að þeir form- eða efnisannmarkar séu á veitingu starfsleyfisins að það geti valdið ógildingu. Kröfum kærenda var því hafnað.

Starfsleyfi Thorsil var fyrst gefið út árið 2015 og felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála það úr gildi í lok október 2016 vegna ágalla á auglýsingu um veitingu þess. Nýtt leyfi var svo gefið út í febrúar síðastliðnum.

Í matsskýrslu Mannvits um framkvæmdina, sem kom út í febrúar 2015, kemur fram að hæð bygginga kísilverksmiðju Thorsil verði allt að 45 metrar og skorsteinar allt að 52 metrar. Áætlað er að framleiða 110.000 tonn af kísilmálmi á ári í fjórum ljósbogaofnum. Verksmiðjan verður á lóð við hlið kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík.