Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Starfsemin verður mjög erfið“ segir ljósmóðir

01.07.2018 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr Magnússon
„Starfsemin verður mjög erfið frá og með deginum í dag,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar Ljósmæðrafélags Íslands. Ljósmæður hafa samþykkt að hætta að vinna yfirvinnu til að knýja á um kjarabætur. Yfirvinnubannið tekur gildi um miðjan mánuðinn. Níutíu prósent þeirra ljósmæðra sem greiddu atkvæði um bannið samþykktu það.

 

Ljósmæður hafa samþykkt að hætta að taka að sér yfirvinnu og tekur yfirvinnubannið gildi um miðjan mánuðinn. Bannið tekur til allra heilbrigðisstofnana þar sem ljósmæður hafa tekið að sér yfirvinnu. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar Ljósmæðrafélags Íslands, segir að þessi verkfallsaðgerð og uppsagnir tólf ljósmæðra sem tóku gildi á miðnætti muni hafa mikil áhrif.

„Við vorum að kjósa um yfirvinnubann, verfkallsboðun. Þátttakan í kosningunni var 77,6 prósent. Þannig að þetta er vel yfir helmingur félagsmanna sem svarar. Af þeim svöruðu eru 90% sem segja já og styðja þetta. Nei eru 6,3 prósent og þær sem skiluðu auðu eru 3,7%. Þannig að þetta er mjög afgerandi niðurstaða í þessari kosningu,“ segir Katrín Sif. 

Bannið tekur gildi um miðjan mánuðinn, líklega þann átjánda júlí og tekur til allra þeirra stofnana þar sem ljósmæður vinna yfirvinnu.

„Það eru eiginlega allar stofnanir nema heilsugæslan, það eru sjúkrastofnanirnar,“ segir Katrín.

Þannig að þetta er þá eitthvað sem tekur gildi um allt land? „Já.“

Verkfallsboðunin verður borin út á morgun og uppsagnir tólf ljósmæðra á Landspítalanum tóku gildi á miðnætti í gærkvöldi.

„Starfsemin verður mjög erfið frá og með deginum í dag. Auðvitað er okkar einlægasta ósk að það verði á okkur hlustað og við okkur samið áður en það kemur til með að reyna á þetta verkfall. Ég veit nú ekki alveg hvernig heilbrigðisstofnanir ætla að vinna úr því ef til verkfalls kemur. Þeir sem að þessum stofnunum standa þurfa að búa til raunhæfar aðgerðaráætlanir ef til verkfalls kemur og ég veit ekki alveg hvernig þeir geta leyst það,“ segir Katrín Sif.