Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Starfsemi Oxfam á Haítí stöðvuð í tvo mánuði

22.02.2018 - 23:15
Oxfam International Regional Director for Latin America Simon Ticehurst, right, speaks with Haiti's Minister of Planning and External Cooperation Aviol Fleurant during a meeting in Port-au-Prince, Haiti, Thursday Feb. 22, 2018. Fleurant says Oxfam
 Mynd: AP
Stjórnvöld á Haítí stöðvuðu í dag starfsemi bresku hjálparsamtakanna Oxfam í landinu þar til niðurstaða fæst í rannsókn á ásökunum um að starfsmenn samtakanna hefðu notfært sér neyð haítískra kvenna kynferðislega eftir jarðskjálftann árið 2010.

Aviol Fleurant, ráðherra þróunarmála á Haítí, segir að Oxfam hafi gert alvarleg mistök með því að láta ekki stjórnvöld á Haítí vita af því þegar upp komst um hvað starfsmennirnir höfðu gert af sér. Starfsemi samtakanna á Haítí verði stöðvuð í tvo mánuði á meðan innlend rannsókn verði gerð á málinu á Haítí. Fleurant segir að komi í ljós að mennirnir hafi keypt vændi fyrir peninga sem ætlaðir voru til hjálparstarfs á Haítí muni hann sjá til þess að Oxfam verði rekið á brott úr landi. 

Rannsókn sem Oxfam gerði ári eftir jarðskjálftann leiddi í ljós að sjö starfsmenn samtakanna hefðu verið sakaðir um kaupa vændi í húsi á vegum samtakanna. Þá hafi skýrska frá árinu 2011 leitt í ljós að þrír starfsmenn hefðu hótað vitni líkamsmeiðingum. Ung haítísk kona greindi Times dagblaðinu frá því að hún hefði haft samfarir við Roland Van Hauwermeiren, stjórnanda Oxfam á Haítí, þegar hún var sextán ára en hann var þá 61 árs. Hann hefur neitað því að hafa greitt fyrir kynlíf og sagst aðeins hafa sængað hjá heiðarlegum, þroskuðum konum á Haítí. 

Oxfam bað á mánudag haítísk stjórnvöld formlega afsökunar á því hvernig brugðist var við málinu á sínum tíma og fyrir að hafa ekki upplýst um málið.