Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Standa ekki undir litlum skuldum

Mynd með færslu
 Mynd:
Átta sveitarfélög sem skulda lítið geta samt ekki staðið undir skuldunum, samkvæmt nýrri úttekt. Meirihluti sveitarfélaga skuldar þó lítið og stendur vel undir skuldunum.

Íslandsbanki hefur tekið saman upplýsingar úr ársreikningum allra sveitarfélaga á landinu fyrir árið 2011. Sveitarfélögunum er skipt í fjóra flokka eftir fjárhagsstöðu og notaðar eru sömu reikniforsendur og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga notar.

Í fyrsta flokknum eru sveitarfélög sem  skulda lítið og þar sem reksturinn stendur vel undir skuldunum. Meirihluti sveitarfélaga fellur í þennan flokk, þar á meðal Akureyrarkaupstaður, Garðabær og Akraneskaupstaður.

Í öðrum flokknum eru sveitarfélög sem skulda mikið en reksturinn stendur samt undir skuldunum. Þetta eru ellefu sveitarfélög, meðal annars Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarkaupstaður og Kópavogsbær.

Í þriðja lagi eru tiltekin sveitarfélög sem skulda lítið en reksturinn stendur samt ekki undir skuldum, miðað forsendurnar. Í þennan flokk falla Skagafjörður og Húnaþing vestra og svo sex sveitarfélög með innan við fimm hundruð íbúa: Mýrdalshreppur, Húnavatnshreppur, Skútustaðahreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Bæjarhreppur og Helgafellssveit.

Að lokum eru sveitarfélög sem skulda mikið og þar sem reksturinn stendur heldur ekki undir skuldunum. Þar eru þrettán sveitarfélög, meðal annars Reykjanesbær, Álftanes, Ísafjarðarbær og Norðurþing.

Tekið er fram að greiðslugeta sveitarfélaga hafi almennt batnað frá árinu 2009 vegna mikillar hagræðingar hjá sveitarfélögunum.