Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stálu nöfnum og kortaupplýsingum 500 milljóna

30.11.2018 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Marriott hótelkeðjan greinir frá því að persónuupplýsingar allt að 500 milljóna gesta keðjunnar gætu hafa orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum. Þrjótarnir hafa herjað á gögn hótelkeðjunnar frá árinu 2014, og nú gætu upplýsingar um gesti Starwood hótelkeðjunnar, sem Marriott yfirtók árið 2016, einnig hafa komist í hendur þeirra.

Meðal upplýsinga sem tölvuþrjótar gætu hafa náð eru nöfn hótelgesta, símanúmer og númer vegabréfa þeirra. Einnig gætu kortanúmer og gildistími þeirra hafa komist til þrjótanna, og upplýsingar um hvernig kortanúmer eru afkóðuð.

Financial Times hefur eftir yfirlýsingu Marriott að keðjan hafi fyrst tekið eftir innbrotinu í kerfi hennar í september. Þá barst keðjunni tilkynning úr innra öryggiskerfi um að einhver væri að reyna að komast inn í gagnageymslu Starwood í Bandaríkjunum. Eftir innri rannsókn kom í ljós að einhver hefði komist inn í kerfi Starwood án leyfis frá árinu 2014. Umfang málsins varð rannsóknarnefnd Marriott ljóst 19. nóvember. Nú vinnur keðjan að því ásamt tryggingafélögum sínum að meta kostnaðinn sem hlýst af upplýsingaþjófnaðinum. Í yfirlýsingunni segir að ekki sé búist við því að málið hafi áhrif á fjárhag hótelkeðjunnar til frambúðar. Sett hefur verið upp vefsíða og símaver til þess að taka við spurningum viðskiptavina um málið, og gestir keðjunnar eiga von á tölvupósti þar sem þeir fá upplýsingar um framvindu mála.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV