Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stálu flugeldum fyrir milljón

29.12.2017 - 13:28
Góðan dag og glelðilegt ár.
Sendi mynd sem ég tók um miðnætti við Hallgrímskirkju.
Gæti e.t.v. Passað betur en þessi sem er með áramótafréttinni.
Full heimild til endurgjaldslausrar notkunar. Mynd: hiticeland.com
Kveðja
Einar Páll
 Mynd: Einar Svavarsson - hiticeland.com
Talið er að söluandvirði flugelda, sem stolið var úr læstum gámi við Skátafélagið Skjöldunga við Sólheima í Reykjavík, nemi um einni milljón króna. Flugeldastjóra félagsins er brugðið og segir skítt að fólk steli frá hjálparsamtökum sem hafi það eitt að markmiði að bjarga mannslífum.

Tveimur vörubrettum af flugeldum var stolið úr gámi við skátaheimili Skjöldunga í Reykjavík aðfaranótt fimmtudags. Skátafélagið var með flugeldana í umboðssölu fyrir Hjálparsveit skáta í Reykjavík. Daði Auðunsson, sem annast flugeldasölu skátafélagsins segir að gámurinn hafi verið læstur og með sprengimerkingum samkvæmt reglugerð um skotelda.

„Þetta voru bæði skotkökur og fjölskyldupakkar og eitthvað fleira,“ segir hann í samtali við fréttastofu. „Við erum ekki komin með endanlega tölu á hvað var tekið í heildina, en ég myndi áætla að þetta væri einhvers staðar í söluvirði kannski um milljón.“

Skítleg framkoma í garð hjálparsamtaka

Daði áætlar að þýfið samsvari hátt í þrjátíu prósentum af þeim flugeldum sem ætlaðir voru til sölu hjá félaginu. Hann segir að þjófnaðurinn hafi umsvifalaust verið tilkynntur til lögreglu, sem líti málið alvarlegum augum í ljósi þess að þarna sé um sprengiefni að ræða. Hann biðlar til almennings eftir upplýsingum til að upplýsa um verknaðinn. „Að þeir sem verða varir við einhvern sem er að selja merkta flugelda frá Landsbjörg, og er ekki viðurkenndur sölustaður og er með mikið magn, að láta lögreglu vita.“ 

Daði fullyrðir að skátafélagið fylgi reglugerð um meðhöndlun og geymslu flugelda í hvívetna, enda fylgi hörð viðurlög við brotum á henni.

„Auðvitað er manni brugðið þegar svona kemur upp, en kannski er maður helst til sár af því að þetta er náttúrulega fjáröflun,“ segir hann. „Mér finnst það heldur skítt af fólki að stela frá samtökum sem snúast bara um það að bjarga mannslífum.“

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV