Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stál í stál á Alþingi

15.09.2011 - 18:25
Staðan á Alþingi er stál í stál þar sem ekkert samkomulag er um þinglok eða afgreiðslu mála. Forseti Alþingis segir að stjórnvöld ætli að klára stjórnarráðsfrumvarpið og því verði það rætt áfram. Þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar kenna forsætisráðherra um að málið mjakist ekki áfram.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti þingstörfum að ljúka í dag. Því fer hins vegar víðs fjarri, frumvarp forsætisráðherra um Stjórnarráðið er rætt út í eitt og ekkert bólar á samkomulagi. Þingmenn halda langar ræður, fundarstjórn forseta er rædd með reglulegu millibili og stóru orðin eru ekki spöruð. Á meðan bíða fjölmörg mál afgreiðslu en dagskráin haggast ekki.

Aðspurð um framhaldið segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, að það eigi eftir að koma í ljós. Ríkisstjórnin og meirihlutinn á Alþingi leggi áherslu á að klára það mál sem nú sé til umræðu. Stjórnarandstaðan telji að það þurfi að ræða frekar. Á meðan svo sé verði málið rætt. Fólk þurfi að tala betur saman og reyna að ná niðurstöðu um þinglok.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í fréttum okkar í gær að mikilvægt væri að ljúka stjórnarráðsmálinu og hún hefði gengið mjög langt í að ná samkomulagi. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, segir að að staðan sé óbreytt. Búið sé að ræða sömu dagskrána alla vikuna, fyrst og fremst vegna mikillar kergju í stjórnarliðinu að þetta frumvarp, sem mikill ágreiningur sé um, sé sett fyrst á dagskrá og komi í veg fyrir að hægt sé að afgreiða fjölda mála sem full samstaða sé um.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, segir að til þess að höggva á þennan hnút verði forsætisráðherra að gefa eftir varðandi stjórnarráðsfrumvarpið.

Forseti Alþingis segir stjórnvöld leggja áherslu á að klára stjórnarráðsfrumvarpið og verði það rætt til enda. Stjórnarandstaðan segja málin standa stál í stál.

Enn eru 14 þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á mælendaskrá og vilja ræða stjórnarráðsfrumvarpið. Pétur Blöndal bíður þess að flytja sína fimmtu ræðu um málið en þrír þingmenn bíða þess að flytja sína fjórðu ræðu um þetta mál. Það eru Vigdís Hauksdóttir, Framsóknarflokki, og Sjálfstæðismennirnir Ásbjörn Óttarsson og Einar K. Guðfinnsson.

Nú er búið að flytja tæplega 830 ræður, andsvör og athugasemdir í annarri umræðu um frumvarpið. Þar af hefur Gunnar Bragi Sveinsson flutt 66 andsvör, Ásmundur Einar Daðason 56 andsvör og Pétur Blöndal 55. Vigdís Hauksdóttir hefur þó talað manna mest um málið, hún hefur varið tveimur klukkustundum og 45 mínútum í ræðustól. 44 mál bíða þess að komast á dagskrá Alþingis.