Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stairway to Heaven aftur fyrir dómstóla

Led Zeppelin - Robert Plant og Jimmy Page
 Mynd: Wikimedia Commons

Stairway to Heaven aftur fyrir dómstóla

03.10.2018 - 13:50

Höfundar

Led Zeppelin þarf að mæta aftur fyrir rétt í Bandaríkjunum eftir að dómstóll skipaði fyrir endurupptöku máls þar sem þeir eru sakaðir um að stela skrítnu stefi sönglauss lags frá sjöunda áratugnum – til að nota í slagaranum Stairway To Heaven.

Kviðdómur í Los Angeles sýknaði Led Zeppelin af því að hafa stolið þekktu riffi úr laginu Taurus með hljómsveitinni Spirit. En nú hefur þriggja dómara áfrýjunarréttur í Bandaríkjunum tekið þá ákvörðun að málið skuli aftur fyrir dómstóla vegna þess að dómarinn hafi ekki gefið kviðdómi í málinu rétt fyrirmæli til að byggja dóminn á. Þetta kemur fram í grein Associated Press.

Það sem vekur athygli er að það er dánarbú gítarleikara Spirit, Randy Wolfe sem hóf málaferlin gegn Led Zeppelin 2015. En Led Zeppelin átti að hafa heyrt upphafslag hljómsveitarinnar Taurus þegar þeir spiluðu á tónleikum með þeim. Kviðdómendur kváðu upp sýknudóminn eftir fimm daga réttarhöld þar sem Jimmy Page og Robert Plant báru vitni. En þar héldu Page sem er skráður fyrir laginu, og Plant sem á textann, fram sakleysi sínu og fullyrtu að þeir hefðu samið Stairway.

Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr nýjum réttarhöldum en rokkáhugamenn hafa rifist um hvort þetta sé stuldur eða ekki í hátt í 50 ár. Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á bæði lögin og taka síðan þátt í rifrildinu - með eða á móti.