RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Stafræn tímamót 2. febrúar

Mynd með færslu
 Mynd:
Þann 2. febrúar verður slökkt á hliðrænu sjónvarpsdreifikerfi RÚV. Útsendingin verður þá alfarið á stafrænu dreifikerfi Vodafone sem þýðir stórbætta þjónustu um allt land.

Mánudagurinn 2. febrúar 2015 mun marka tímamót í íslenskri sjónvarpssögu, því slökkt verður á hliðræna dreifikerfinu sem hefur verið í notkun allt frá upphafi sjónvarpsútsendinga RÚV árið 1966. Þess í stað verður alfarið sent út í gegnum stafrænt dreifikerfi Vodafone. Gæði stafrænna útsendinga eru hins vegar umtalsvert meiri og möguleikar í útsendingum aukast. Vorið 2013 sömdu RÚV og Vodafone um að Vodafone myndi sjá um stafræna útsendingu fyrir RÚV næstu 15 árin. Í samningnum fólst að Vodafone myndi efla stafrænt sjónvarpsdreifikerfi sitt umtalsvert þannig að það gæti dreift háskerpuútsendingu til 99,8% landsmanna að meðtöldum helstu sumarhúsasvæðum.

Síðan þá hefur Vodafone eflt sjónvarpsdreifikerfi sitt umtalsvert og m.a. þrefaldað fjölda stafrænna sjónvarpssenda á landinu. Jafnframt hefur verið tekin í notkun ný útsendingartækni sem hentar til háskerpuútsendinga. Búið er að setja upp alla senda og hefja háskerpuútsendingar á flestum svæðum. Þessar vikurnar er unnið að því að opna á háskerpuútsendingar á þeim sendum sem eftir eru. Nýja kerfið nær til 99,9% allra heimila á landinu.

Auk þess að geta boðið upp á háskerpuútsendingar eru stafrænu útsendingarnar mikið framfaraspor frá hliðræna útsendingarkerfinu. Myndgæði aukast verulega og „snjókoman“ sem margir kannast við úr gamla kerfinu heyrir sögunni til. Þessu til viðbótar eru fleiri stöðvar sendar út um stafræna kerfið og geta því þúsundir heimila í hinum dreifðu byggðum nú í fyrsta sinn séð fleiri sjónvarpsstöðvar en bara RÚV.

Nánari upplýsingar á vef Vodafone