Stafræn bylting til góðs eða ills?

020614-N-0552D-001
San Diego, CA (Jun. 14, 2002) -- Mr. Stephen C. Dunn, Deputy Comptroller for the U.S. Navy's Space and  Naval Warfare Systems Command (SPAWAR), recently received the prestigious "William A. Jump Meritorious Award for
 Mynd:

Stafræn bylting til góðs eða ills?

24.11.2014 - 16:12
Varð umhverfislegur ábati af stafrænu byltingunni? Notum við minni pappír og minni orku en við myndum annars gera? Eða hefur stafræna byltingin kannski kallað á aukna sóun á öðrum sviðum þannig að ábatinn sé lítill sem enginn þegar upp er staðið? Stefán Gíslason fjallar um málið í pistli sínum.

Þeir sem muna meira en 20 ár aftur í tímann eru sennilega flestir sammála um að á þessum tíma hafi átt sér stað svo ör þróun í upplýsingatækni að hægt sé að tala um stafræna byltingu. Flestir eru líklega líka sammála um að þessi bylting hafi falið í sér stórmerkileg tækifæri til úrbóta í umhverfismálum sem meðal annars hafi birst í pappírslausum viðskiptum, fjarvinnu og ýmsu öðru sem engan gat órað fyrir, jafnvel fram undir þann tíma sem 20. öldin var að líða undir lok.

 Stafræna byltingin er engan veginn búin, því að enn á sér stað mjög ör þróun á þessu sviði. Hins vegar er nógu langur tími liðinn frá því að byltingin hófst til að hægt sé að velta fyrir sér hinum raunverulegu áhrifum. Hefur umhverfislegi ávinningurinn til dæmis orðið eins mikill og vænta mátti? Notum við minni pappír og minni orku en við myndum annars gera? Eða hefur stafræna byltingin kannski kallað á aukna sóun á öðrum sviðum, þannig að ábatinn sé lítill sem enginn þegar upp er staðið?

 Í bókinni State of the World 2014 sem gefin er út af Worldwatch Institute, er fjallað um umhverfisáhrif internetsins í sérstökum kafla undir yfirskriftinni Digital Dilemma: Is the Internet Killing (or Saving) the Planet? Þar er velt upp spurningunni um það hvort netið sé á góðri leið með að bjarga jörðinni eða hvort það sé kannski að ganga endanlega frá henni. Meginniðurstaðan er sú að við þessari spurningu sé ekki til neitt einfalt svar og að gagnrýnin hugsun sé lykilatriði á þessari stafrænu vegferð.

 Í umræddum bókarkafla kemur fram að mjög erfitt sé að meta raunveruleg áhrif stafrænu byltingarinnar á umhverfið, einfaldlega vegna þess að á sama tíma hafi orðið gríðarlegar breytingar á öðrum sviðum. Þannig hafi mynstur orkunotkunar breyst heilmikið af öðrum ástæðum, bæði á vinnustöðum og á heimilum, svo sem vegna þess að flest tæki nota nú mun minni raforku en áður og eins hafi ýmislegt breyst í hönnun og frágangi bygginga, jafnt innanstokks sem utan, sem hefur leitt til minni orkunotkunar. Þar munar mest um bætta einangrun þó að fleiri þættir komi vissulega einnig inn í myndina. Þegar upp er staðið getur því reynst býsna flókið að reikna út raunverulegan þátt stafrænu tækninnar í sparnaðinum.

 Þegar rætt er um orkusparnað eða annan umhverfislegan ábata af stafrænu byltingunni koma svokölluð frákastsáhrif við sögu, eða það sem á ensku er kallað rebound effect. Það vill nefnilega brenna við að sparnaður á einu sviði leiði til aukinnar neyslu á öðru sviði, sem getur þýtt að umhverfislegur ávinningur sé enginn þegar upp er staðið. Þannig gæti umhverfislegur ábati vegna orkusparnaðar á skrifstofu, fjarfunda eða minni pappírskaupa hugsanlega skapað svigrúm sem notað er í svo sem eins og eina utanlandsferð sem ekki hefði verið farin ella. Hér þarf sem sagt að horfa á heildarmyndina. Svo má líka hafa í huga að margt af því sem sagt er um umhverfislegan ávinning tölvutækninnar er komið frá þeim sem selja okkur tæknina. Upplýsingarnar eru þannig ekkert endilega hlutlausar.

 Ef við lítum nánar á áhrif upplýsingatækninnar á orkunotkun á heimilum og skrifstofum er næsta augljóst að tækninni fylgja mikil sparnaðartækifæri sem sum hver eru ágætlega nýtt. Nú getur fólk til dæmis sleppt því að ferðast langar leiðir til vinnu á hverjum degi og unnið að hluta til eða öllu leyti heima hjá sér eða í nánasta nágrenni. Fjarfundir hafa að einhverju leyti komið í staðinn fyrir hefðbundnari fundi, fólk getur hlustað á tónlist og sótt sér lesefni á netið í staðinn fyrir að kaupa geisladiska og bækur með tilheyrandi efnisflutningum – og svo mætti lengi telja. En hér gildir náttúrulega það sama og annars staðar, að við neytendurnir sjáum aðeins hluta af heildarmyndinni. Við vitum til að mynda lítið um skýin þar sem gögnin okkur eru geymd og um það hvers konar orka er notuð þar.

 Á síðustu fjórum árum hefur Greenpeace gefið út þrjár skýrslur um umhverfisáherslur stærstu fyrirtækjanna í upplýsingaiðnaðinum. Vorið 2011 kom út skýrslan How dirty is your data, eða Hversu grómtekin eru gögnin þín, eins og skýrslan heitir væntanlega í íslenskri þýðingu. Ári síðar gáfu samtökin út skýrsluna How Clean is Your Cloud og á síðasta vori kom svo út skýrslan Clicking Clean. Í þeirri síðastnefndu er bent á að innan fárra ára verði helmingur jarðarbúa orðinn nettengdur. Raforkunotkun vegna internets og gagnageymslu í skýjum sé nú þegar orðin svo mikil að ef internetið væri sérstakt land myndi það vera í sjötta sæti yfir þau lönd heimsins þar sem mest er notað af raforku, og að þessi notkun muni að öllum líkindum aukast um 60% fram til ársins 2020 samfara fjölgun nettengdra íbúa og aukinni netnotkun hvers þeirra um sig.

 Að sögn Greenpeace átti stór hluti af uppbyggingu gagnavera og annarra orkufrekra fjárfestinga í upplýsingatæknigeiranum sér til skamms tíma stað á þeim svæðum heimsins þar sem raforkuframleiðsla byggist hvað mest á kolabrennslu. Á tveimur síðustu árum hafi hins vegar orðið breyting á þessu, því að nú séu stærstu fyrirtækin á þessu sviði farin að leggja svo mikla áherslu á nýtingu endurnýjanlegrar orku að það sé farið að hafa veruleg áhrif  í þá átt að styðja við uppbyggingu í þeim geira og hægja á uppbyggingu kolaorkuvera og kjarnorkuvera. Þessi þróun er talin byggjast annars vegar á aukinni meðvitund neytenda og hins vegar á því að endurnýjanlega orkan verður sífellt samkeppnishæfari í verði, sem leiðir til aukinnar uppbyggingar í greininni sem aftur stuðlar að enn betri samkeppnishæfni. Enn sitja þó nokkur fyrirtæki eftir og reyna að bæta ímynd sína með kaupum á upprunaábyrgðum og kolefnisjöfnun í stað þess að ráðast í breytingar á eigin starfsemi. Greenpeace nefnir stórfyrirtækið Amazon sérstaklega sem svartan sauð í þessu sambandi. Hins vegar þykir Google vera til sérstakrar fyrirmyndar og sömuleiðis fá Apple og Facebook einkar góða dóma. Þessir þrír gagnarisar eru farnir að hafa verulega jákvæð áhrif á umhverfisáherslur orkugeirans með innkaupaáherslum sínum.

 Ísland kemur nokkuð við sögu í nýjustu skýrslu Greenpeace um hreina músarsmelli eða Clicking Clean og enn frekar í umfjöllun fjölmiðla um skýrsluna. Þar er talað um Ísland og Noreg sem leiðandi svæði í uppbyggingu grænna gagnavera.

 Og til að draga þetta nú aðeins saman, þá hefur þróunin í stuttu máli verið mjög jákvæð og kannski mun stafræna byltingin eiga stóran þátt í þeirri orkubyltingu sem augljóslega þarf að eiga sér stað á allra næstu árum. En gagnrýnin hugsun heldur áfram að vera lykilhugtak í umræðunni.