Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Stærstir þrátt fyrir hneykslismál“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Erlendir fjölmiðlar tala um varnarsigur Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir hneykslismál í umfjöllun sinni um kosningaúrslitin í nótt. Þá er fjallað um ástæður þess að Íslendingar gengu að kjörborðinu öðru sinni á innan við ári.

Á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, er farið yfir aðdraganda kosninganna. Þar segir að mikið vantraust ríki meðal landsmanna í garð stjórnmálamanna, þrátt fyrir blómstandi hagkerfi landsins. Reiði vegna meðmælabréfs föður forsætisráðherra vegna uppreistar æru barnaníðings og ríkisstjórnin hafi verið sökuð um að ætla að þagga málið niður hafi leitt til þess að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfi vegna trúnaðarbrests. Þá er fjallað um ástæður þess að kosið var í fyrra, þegar þáverandi forsætisráðherra hrökklaðist úr embætti vegna upplýsinga úr Panamaskjölunum.

AFP fréttastofan segir að þrátt fyrir að hafa fjölda hneykslismála á bakinu hafi Bjarni Benediktsson leitt Sjálfstæðisflokkinn til varnarsigurs gegn stjórnarandstöðunni með aðstoð blómstrandi efnahags. Þar er sagt frá því að Bjarni hafi boðað til kosninga eftir að Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu. Fjallað er um fjölskyldu Bjarna, sagt frá því að hann sé fyrrum lögmaður og viðskiptamaður og fjölskylda hans sé ein sú ríkasta og áhrifamesta á Íslandi. Hann sé flæktur í ýmis fjármálahneyksli og hafi verið í Panama-skjölunum. Þá hefur AFP fréttastofan eftir Jaryu Sukuay, 23 ára kjósanda í Reykjavík, að stjórnvöld skilji ekki stöðu vinnandi fólks á húsnæðismarkaði, því fólkið við stjórnvölinn eigi allt ríka foreldra.

Breska dagblaðið Telegraph greinir frá því að fyrstu tölur sýni að ríkisstjórnin hafi fallið, en óljóst sé hvort Katrín Jakobsdóttir hafi nægan stuðning til þess að forma nýja ríkisstjórn. Þar er, líkt og á BBC, fjallað um aðdraganda kosninganna og kosninganna í fyrra.

Norska ríkisútvarpið fer yfir það að þrátt fyrir að kannanir hafi sýnt að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn hafi verið nokkuð jöfn, með á milli 20 og 25 prósenta fylgi, en Sjálfstæðisflokkurinn endi með um tíu prósenta forskot, tæplega 26 prósenta fylgi.

Sænska ríkissjónvarpið segir að allar líkur verði á því að stjórnarmyndunarviðræður komi til með að taka langan tíma, jafnvel fleiri mánuði.

Fyrirsögn Verdens gang í Noregi segir að hneykslum vafinn flokkur sé enn sá stærsti, og BT í Danmörku tekur nokkurn veginn í sama streng.

Reuters fréttastofan hefur eftir viðtali við Katrínu Jakobsdóttur að hún útiloki ekki samstarf við Miðflokkinn, en hún vilji fyrst og fremst vinna með vinstri flokkunum.

Bloomberg segir flókna tíma framundan í stjórnmálum á Íslandi. Þar er fjallað um aðdraganda kosninganna og umfjöllun Guardian og Stundarinnar um viðskipti Bjarna Benediktssonar í Glitni fyrir hrun árið 2008. Þeir hafa eftir honum að það sem máli skipti úr þeirri umfjöllun sé að ekkert hafi komið fram sem sýni fram á lögbrot af hans hálfu. Verið sé að reyna að finna veikan blett á honum, en útlitið sé gott fyrir hann og Sjálfstæðisflokkinn.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV