Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stærsti skjálfti á Suðurlandi síðan 2008

06.05.2017 - 19:43
Langt er síðan skjálfti varð svona austarlega í brotabeltinu á Suðurlandi, segir Kristín Jónsdóttir, jarðskálftafræðingur á Veðurstofu Íslands um skjálftann í dag, sem mældist 4,5 að stærð. Hann er sá stærsti á Suðurlandi síðan 2008. Aðspurð hvort búast megi við fleiri skjálftum á næstunni, segir Kristín að ómögulegt sé að segja til um það.

„Svona skjálfti er ágætis áminning. Við búum í landi þar sem að verða skjálftar og við verðum að nota tímann á milli hamfara til að kanna okkar viðbragðsáætlanir og fara yfir málin til að minnka tjón og slys,“ sagði Kristín í kvöldfréttum RÚV.

Árið 2000 urðu tveir skjálftar á Suðurlandi , 17. Júní og 21 júní. Þeir voru 6,5 að stærð. Orka sem leysis í slíkum skjálfta er 900 sinnum meiri en í skjálfta af stærðinni 4,5 eins og varð í dag. 29. maí 2008 varð jarðskjálfti í Hveragerði, sem var 6,3 að stærð.

Hægt er að horfa á umfjöllun um jarðskjálftann í kvöldfréttum sjónvarpsins í heild í spilaranum hér að ofan. 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV