Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Stærsta skriða á Íslandi á sögulegum tíma

17.08.2014 - 14:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Skriðan sem féll við Öskjuvatn í júlí er stærsta skriða sem fallið hefur hér á landi á sögulegum tíma, segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur. Hann býst við að fleiri skriður falli þar í vetur og vor.

Skriðan sem fékk við Öskjuvatn í síðasta mánuði hækkaði vatnsborð þess um tvo metra og yfir þrjátíu milljón rúmmetrar af efni fór þar af stað. Þetta sýna mælingar vísindamanna. Eldfjallafræðingur segir að ekki hafi fallið stærri skriður hér á landi á sögulegum tíma.

Skriðan í Öskjuvatni féll að kvöldi 21. júlí og hún orsakaði svo flóðbylgju í Öskjuvatni. Öll umferð var bönnuð í Öskju í kjölfarið. Nú er hún leyfð en viðvörunarskilti hafa þó verið sett upp við Öskjuvatn. Vísindamenn eru nú við mælingar á botninum á vatninu. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands segir þær mælingar sýna að skriðan er um tveggja kílómetra löng og ríflega eins kílómetra breið þar sem hún er breiðust. „Við erum ekki búin að skjóta á hversu þykk hún er, en það er ljóst að þetta er stærsta skriðan sem fallið hefur á sögulegum tíma, það er alveg ljóst,“ segir Ármann.

Mælingar voru gerðar á sama stað árið tvö þúsund og tólf. Sá samanburður leiðir í ljós að gríðarlega mikið efni hefur losnað. Vatnsborð Öskju hefur til að mynda hækkað um tvo metra. „Það segir okkur þá að skriðan sjálf, eða hluti hennar, sem er í vatninu, hann er 24-30 milljón rúmmetrar, sem gerir þetta að gríðarlega mikilli skriðu. Og svo er eitthvað í hlíðinni sem við eigum eftir að taka tillit til, þannig að hún er yfir 30 milljón rúmmetrar,“ segir Ármann.

Askja enn í mótun

Ármann segir það alveg ljóst að fleiri skriður eigi eftir að falla þarna, þó erfitt sé að spá fyrir um hvenær það gerist. Askja sé enn í mótun, en hún myndaðist árið 1875. „Og brattar suðurhlíðar fjallanna eru klárlega í ójafnvægi. Svo sjáum við líka - það verða kannski minni skriður, ekki svona stórar - að það eru ennþá miklar sprungur fyrir ofan skriðufarið sjálft, að þar á sjálfsagt eftir að falla minni skriður í vetur og næsta vor þegar leysingarnar byrja,“ segir Ármann.