Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Stærsta skemmtiferðaskipið til Ísafjarðar

25.05.2018 - 21:30
Fólksfjöldi Ísafjarðar nær þrefaldaðist í morgun þegar Meraviglia, stærsta skemmtiferðaskip sem komið hefur til landsins, lagðist við akkeri í Skutulsfirði. Farþegi eins stærsta skemmtiferðaskips í heimi lét það ekki á sig fá að skoða Ísafjörð fullan af samferðafólki sínu.

 

Fjórða stærsta skemmtiferðaskip veraldar

Meraviglia lagðist að bryggju á Akureyri í gær og við akkeri á Ísafirði í morgun. Skipið er tæp 167 þúsund tonn og um borð eru ríflega 6000 þúsund manns frá 53 þjóðlöndum. Það er fjórða stærsta skemmtiferðaskip veraldar. Tugi langferðabíla þurfti til að flytja farþega í báðum höfnum, auk þess sem farþegarnir leigðu um eitthundrað bíla á Akureyri og yfir sextíu á Ísafirði. „Það er mjög mikilvægt að fólk kaupi ferðir um borð þá vitum við hver fjöldinn er og búið að fá rútur og leiðsögumenn og búið að skipuleggja þetta fyrir fram,“ segir Linda Björk Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturferða á Ísafirði. Farið er með fólk í rútuferðir í nágrannaþorp og sveitarfélög sem dreifir álaginu og rútur, bílstjórar og leiðsögumenn þurfa að fara í nokkrar ferðir á degi sem þessum.

Stærsta skipið en ekki stærsti dagurinn

Á Ísafirði búa um 2600 manns. Farþegar á Meraviglia eru um 4500, ásamt 1500 í áhöfn, og því ljóst að fólksfjöldinn í bænum hefur nær þrefaldast. Þetta er þó ekki stærsti dagurinn í sumar. Um verslunarmannahelgina er búist við um átta þúsund manns á þremur skipum á einum og sama deginum. 

Segjast ekkert horfa á samferðarfólkið

En hvað finnst ferðamönnum um að hitta nær einunigs samferðafólk sitt í bænum og hvað segja íbúar?  „Ég horfi ekkert á fólkið,“ segir Ursula Beeler frá Sviss. „Ég einblíni bara á það sem ég sé hér. Það truflar mig ekkert.“ Frank Kühler, frá Þýskalandi, segist ekkert velta fyrir sér samferðarfólkinu. Hann skoði frekar arkitektúr og hvernig fólk býr, hann hafi meiri áhuga á því. „Gaman að sjá aukið líf í bænum. Fólk á rölti útum allan bæ,“ segir Guðjón Torfi Sigurðsson, íbúi á Ísafirði. Upplifirðu ónæði? „Það er kannski þegar þau eru að rölta á götunum og maður þarf að komast fram hjá þeim.“ 

„Ég veit kannski sem er að sumum þykir þetta mikið en ég horfi til þess hversu gott þetta fyrir hagvöxtinn í bænum, fyrir ferðaþjónstuna og þetta er sannarlega góð búbót sem við viljum ekki missa,“ segir Kristín Hálfdánsdóttir, íbúi á eyrinni á Ísafirði.

181 skemmtiferðaskip er væntanlegt til Akureyrarhafnar í sumar og um 110 til Ísafjarðar.