Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Stærsta gos síðan í Skaftáreldum

02.11.2014 - 21:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Eldgosið í Holuhrauni er stórgos á alla mælikvarða. Á tveimur mánuðum er hraunið orðið stærra en það sem streymdi úr Heklu um miðja síðustu öld en það gos stóð í þrettán mánuði. Hraunið er orðið um einn rúmkílómetri. Það eru þúsund milljónir rúmmetrar hrauns.

Áhugavert er að bera gosið saman við gosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum. Þar kom upp gjóska en ekki hraun. En ef gosefnin eru metin sem jafngildi þétts bergs kemur í ljós að magn kviku nú er orðið 5-6 sinnum meira en í Eyjafjallajökli og fjórum sinnum meira í Grímsvötnum 2011. Hraunið á þó enn langt í land að ná því magni sem upp kom í Skaftáreldum, en það var næstum fjórtán sinnum meira.

„Þetta er mjög stórt eldgos. Það eru núna komnir upp í Holuhrauni um einn rúmkílómetri af kviku, af hrauni. Það þýðir það að þetta er orðið stærsta hraungos, og sennilega stærsta gos, í efnismagni talið, sem komið hefur á Íslandi, síðan í Skaftáreldum,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur í vísindaráði Almannavarna.

Hann segir vandkvæðum bundið að mæla svo stórt hraun. „Hraunið er svolítið erfitt, vegna þess að þetta er mikill fláki, þetta er orðið svæði á stærð við Reykjavík, og það er orðið 10-20 metra þykkt á köflum.“ Á jöðrunum er hraunið víða 8 til 10 metra þykkt. Þá séu aðstæður erfiðar á gosstöðvunum. „Það er ekki auðvelt, vegna þess að þarna liggur oft gosmökkurinn yfir, og skyggnið ekki gott,“ segir Magnús Tumi. Erfitt sé að fara nærri hrauninu og flytja þangað tæki til mælinga.

Tengsl Bárðarbungu og gossins

Umbrotin hófust með mikilli skjálftahrinu í Bárðarbungu 16. ágúst. Mælingar úr lofti sýna stöðugt sig í öskju hennar. Sigið er nú orðið yfir 40 metrar þar sem mest er. Svæðið sem sigið hefur er yfir 70 ferkílómetrar að stærð. Öskjusigi fylgir oft stórgos. Mestar líkur eru taldar á að tengsl séu milli öskjusigsins í Bárðarbungu og eldgossins í Holuhrauni. Rúmmál sigsins er þó heldur minna en rúmmál hraunsins og kvikugangsins. „Það er líklegast að þetta sé, ef að þetta gos heldur áfram, svona í einhverja mánuði, þá auðvitað flokkast það sem stórgos á alla mælikvarða, þó að það vonandi muni nú aldrei nálgast Skaftárelda. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir öðrum möguleika, það er það verði eldgos í Bárðarbungu sjálfri,“ segir Magnús Tumi. Slíkt gos gæti leitt til stórhlaupa og mikils gjóskufalls. Mikilvægt sé að vera við því búin. 

[email protected]