Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Stærsta efnahagsaðgerð þjóðarinnar

08.06.2015 - 20:07
Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta er ekki bara stærsta efnahagsaðgerðin á þessu kjörtímabili heldur ein stærsta efnahagsaðgerð sem við höfum nokkru sinni ráðist í," segir Bjarni Benediktsson um aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um losun gjaldeyrishafta sem kynnt var í dag.

Rætt var við hann um aðgerðirnar í Kastljósi í kvöld. 

Samkomulag við kröfuhafa liggi ekki fyrir en „við erum með mjög sterkar vísbendingar um að mikilvægir kröfuhafar vilji frekar fara leið nauðasamninga og stöðugleikaskilyrða en að fá [stöðugleika-] skattinn á sig." Sá skattur á að leggjast á um næstu áramót.

Bjarni segir að horfast verði í augu við það að það hafi tekið töluvert langan tíma að skynja umfang vandans. „Það var erfitt að svara einstaka aðilum um það hvort hann væri að mæta kröfum stjórnvalda þegar stjórnvöld voru kannski ekki búin að greina til fulls umfang vandans. Þú vilt ekki ganga frá afmörkuðum þáttum málsins án þess að hafa heildaryfirsýn. Fyrri hluti þessarar vinnu, heilt ár, fór í að skilja umfangið. Í framhaldinu gerðum við það upp við okkur að við værum ekki til samninga um þessi mál. Við áttuðum okkur á því hvað væri undir, hvað þyrfti að gerast og tilkynntum það til lykilkröfuhafa að þetta væri það sem íslensk stjórnvöld myndu gera að skilyrði að sinni hálfu.“

Stjórnvöld hefðu verið tilbúin til að hlusta á hugsanlegar leiðir að þessu markmiði en markmiðið sjálft hafi aldrei verið samningsatriði. „Við getum ekki farið í neins konar samninga við kröfuhafa um atriði sem varða þjóðarhag og almannaheill. Það kom aldrei til greina,“ segir Bjarni. „Það getur vel verið að það hafi flýtt fyrir en líka það að geta veitt skýr svör og þau var ekki hægt að gefa fyrr en við vorum komin með heildarsýn yfir eðli vandans."