Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Staðfestir frávísun á kröfum Fögrusala

20.03.2017 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Jökulsárlón
Úrskurður um frávísun á máli Fögrusala var staðfestur í Hæstarétti fyrir helgi. Málið snerist um kaupsamning sem Fögrusalir höfðu gert við sýslumanninn á Suðurlandi um kaup á jörðinni Felli, sem liggur að Jökulsárlóni, eftir að jörðin var tekin til nauðungarsölu.

Íslenska ríkið nýtti sér síðan forkaupsrétt sinn á jörðinni. Fögrusalir kröfðust þess að felld yrði úr gildi sú ákvörðun sýslumanns að fallast á kröfur ríkisins um að ganga inn í kaupsamninginn og gefa út afsal fyrir jörðinni til ríkisins.

Fögrusalir fóru einnig fram á að það yrði viðurkennt að kaupsamningur Fögrusala og sýslumanns væri í fullu gildi. Sú krafa var reist á því að frestur íslenska ríkisins til að nýta sér forkaupsréttinn hefði verið liðinn þegar sýslumanni hefði borist tilkynning þar að lútandi.

Í héraði var málinu vísað frá dómi á þeim grundvelli að kröfur Fögrusala ættu ekki stoð í ákvæðum laga um nauðungarsölu. Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu og staðfesti úrskurðinn um frávísun málsins.