Staðan í Jemen rædd í Öryggisráðinu

14.06.2018 - 08:44
epa06802968 Sudanese forces fighting alongside the Saudi-led coalition in Yemen gather near the outskirts of the western port city of Hodeidah, Yemen, 12 June 2018. According to reports, the Saudi-led military coalition and Yemeni government forces
Súdanskir hermenn sem berjast með stjórnarliðum við Hodeida. Mynd: EPA-EFE - EPA
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman í dag til þess að ræða nýjustu tíðindi fra Jemen, en gær hófu hersveitir hliðhollar viðurkenndum valdhöfum stórsókn að hafnarborginni Hodeida, sem hefur verið á valdi Hútí-fylkingarinnar. 

Boðað var til fundarins í öryggisráðinu  eftir að Martin Griffith, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Jemen, kvaðst enn vera að reyna að semja um óhindraðan flutning hjálpargagna um Hodeida, helstu hafnarborgar landsins við Rauðahaf, en þangað berast um 70 prósent alls innflutnings til Jemen. 

Griffith kveðst hafa átt fundi með fulltrúum allra fylkinga sem að málinu koma, en auk mannúðarmála hefði hann rætt pólitísk og hernaðarleg úrlausnarefni. 

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur lýst yfir stuðningi við tilraunir Griffiths til að fá stríðandi fylkingar að samningaborði, en margir óttast hörmungar í Hodeida dragist bardagar þar á langinn.

Í sókn sinni að borginni njóta stjórnarliðar stuðnings erlendra her- og flugsveita þar sem Sádi-Arabar eru í forystu. Að sögn fréttastofunnar AFP voru sveitir stjórnarliða í gærkvöld komnar að flugvelli borgarinnar. Átján loftárásir hafi verið gerðar á bækistöðvar Hútífylkingarinnar í útjaðri Hodeida í gær.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi