Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Staða svartra versni í kjölfar valdatöku Trump

Mynd: EPA / EPA

Staða svartra versni í kjölfar valdatöku Trump

13.04.2017 - 07:30

Höfundar

Líklegt er að staða svarta minnihlutans komi til með versna í kjölfar valdatöku Donalds Trump. Um þessa stöðu er fjallað í fjórum þáttum um páskana á Rás 1, þar sem staða dagsins í dag er sett í samhengi við fortíðina, fjögurra alda sögu svartra í Norður-Ameríku.

Þættirnir heita Ameríski draumurinn en umsjónarmaður þeirra er Lilja Hjartardóttir stjórnmálafræðingur. Hér fyrir ofan má heyra stutt brot úr fyrsta þætti af fjórum, en þættina má alla nálgast í Sarpinum og í Hlaðvarpinu.

Að veikja velferðarkerfið og stjórnsýsluna

Donald Trump hefur lagt fram fyrsta frumvarp sitt til fjárlaga og stefnir þar að því að veikja velferðarkerfið eins mikið og þingið mun leyfa. Eins og ávallt verða þau sem standa veikast fyrir, fyrir mesta högginu. Þá hefur varaforsetinn Mike Pence nú þegar notað stöðu sína til að greiða atkvæði í þinginu, sem þrengir enn að grunnheilsugæslu fyrir fáækar konur.

Steve Bannon, helsti ráðgjafi Trump, hefur sagt að tilgangur með framboði hans hafi verið að gera út af við kerfið, hina opinberu stjórnsýslu, enda séu flestir sem vinna í hinum 250 stofnunum og deildum á vegum alríkisins, frjálslynt fólk sem muni vinna gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar.

Aukin mentun skilar sér seint 

Stórt hlutfall blökkumanna sem býr enn við mikla fátækt í þessu ríka landi sýnir að þrátt fyrir aukna menntun fái margir blökkumenn aðeins  lægst launuðu störfin. Kerfislæg mismunun á vinnumarkaði sem vinnur gegn þeim. Það er staðreynd að það að bera hvítt nafn eins og Johnny gefur helmingi meiri líkur á því að komast í atvinnuviðtal heldur en að heita Jamal.

Svört líf skipta máli

Eitt umfjöllunarefni þáttanna er stofnanabundið ofbeldi sem beinist að svarta minnihlutanum. Hreyfingin Black Lives Matter sem hefur verið áberandi á undanförnum árum er viðbragð við því. Eitt af mörgum áhyggjuefnum hreyfingarinnar er hervæðing lögreglunnar, en um árabil hefur hún fengið hergögn, eins og handsprengjur, sjálfvirk vopn og skothelda bíla sem líta út eins og skriðdrekar, frá hernum. Þá hefur sérsveitum fjölgað mjög. Eftir mótmælin í Ferguson í Missouri í ágúst 2014 bannaði Obama flutning á hluta slíks búnaðar til lögreglunnar. Ekki eru allir jafn hrifnir af Black Lives Matter hreyfingunni og hún hefur kallað á nýjar hreyfingar.

Lög og regla

Forsetaframbjóðandinn Trump lofaði hins vegar í kosningabaráttunni að aflétta banninu á hervæðingu lögreglunnar, enda kynnti hann sig sem frambjóðenda laga og reglu. Trump gagnrýndi Obama fyrir að náða fanga og lýsti sig andvígan öllum betrumbótum á réttarkerfinu. Þá lýsti hann vilja sínum til að koma á dauðarefsingum  - með sérstakri tilskipun - yfir alla þá sem drepa lögreglumenn.

Gríðarlegt refsiréttarkerfi

Rúmlega tvær miljónir manna voru á bak við lás og slá í Bandaríkjunum í lok árs 2015 en um 6,7 milljónir manna voru alls í bandaríska refsikerfinu - það er fólk í fangelsum, á skilorði og á reynslulausn. Einn af hverjum 9 föngum er í lífstíðarfangelsi og þriðjungur þeirra munu aldrei frá reynslulausn. 

Fyrir unga drengi í Bandaríkjunum sem eru fæddir árið 2001 eru líkurnar á að lenda  í fangelsi 1 á móti 3 ef þú ert svartur, en 1 á móti 17 ef þú ert hvítur. Fjöldi ungra blökkumanna  í fangelsum var meiri en fjöldi þeirra á vinnumarkaði árið 2008 (37% á móti 26%). Á degi hverjum er einn af hverjum 10 svörtum mönnum á fertugsaldri  í fangelsi. 

Staða kvenna í minnihlutahópum  

Bandarísk stjórnmál endurspegla illa bandarískan veruleika. Til dæmis eru aðeins fjórir af 24 ráðherrum í ríkisstjórn Trumps konur og þær eru aðeins 20 % þingmanna í Washington. Samt mennta bandarískar konur sig mun meira en karlar og launuð atvinnuþátttaka þeirra færist stöðugt nær þátttöku karla, en þær bera 75% af launum þeirra úr býtum. 

Konur, og þá sérstaklega þær sem tilheyra ekki hinum hvíta meirihluta, eru því mun líklegri til að vera fátækar vegna lægri launa. Að öllu óbreyttu munu hvítar konur ná launajafnrétti eftir 40 ár, svartar konur eftir 108 ár og konur af rómönskum uppruna eftir 232 ár.

Hver er svartur og hver er hvítur?

Hver telst svartur og hver telst hvítur er síbreytilegt. Með DNA rannsóknum hefur komið í ljós að milljónir hvítra í Bandaríkjunum eru eiginlega svört ef miðað er við löggjöf aðskilnaðartímabilsins og að svartir eru miklu hvítari en þeir héldu. Bandaríkin eru svo sannarlega mikið mósaík-land.

Ameríski draumurinn í umsjón Lilju Hjartardóttur er á dagskrá Rásar 1 á öllum helgidögum páska klukkan 13:10. Í spilaranum hér efst má heyra stutt brot úr fyrsta þætti.