Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Staða seðlabankastjóra auglýst

21.02.2014 - 10:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaráðherra hefur ákveðið að auglýsa starf seðlabankastjóra laust til umsóknar. Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins í morgun. Þar kemur fram að Bjarni Benediktsson hafi kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun minnisblað um endurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands.

Fram kemur á vef fjármálaráðuneytisins  að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, telji tímabært að taka þær breytingar sem gerðar voru á lögum um Seðlabanka Íslands í febrúar fyrir fjórum árum til endurskoðunar. Mikilvægt sé að skoða hvort ástæða sé til að gera breytingar á skipulagi fjármálamarkaðar og Fjármálaeftirlitsins í því skyni að efla samstarf og skýra verkaskiptingu milli FME og bankans.

Á vef ráðuneytisins segir enn fremur að Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, hafi verið tilkynnt að ákveðið hafi verið að augýsa embætti seðlabankastjóra laust til umsóknar. „ Er það gert til að gefa stjórnvöldum aukið svigrúm í tengslum við mögulegar breytingar á lögum um Seðlabankann,“ segir á vef fjármálaráðuneytisins.

Bjarni Benediktsson sagðist í fréttum RÚV á þriðjudag ekki ætla að ræða hugsanlegar breytingar á Seðlabankanum. Ætti að breyta þyrfti að fara vandlega yfir þau mál og að engri slíkri skoðun væri lokið. Fjármálaráðuneytið þurfti að tilkynna Má í gær ef skipunartíma hans yrði ekki framlengdur en honum lýkur eftir hálft ár.

Bjarni kvaðst þá ekki vilja tjá sig um hvort það væri samkomulag milli flokkanna um að fjölga seðlabankastjórum í þrjá. „Eins og ég segi ef það kemur til þess að við leggjum til einhverjar breytingar í þessum efnum þá verður það eftir að það hefur verið farið vandlega yfir það og við erum ekki komin á leiðarenda með neina slíka skoðun. Ég hef ekkert frekar um þetta að segja,“ sagði Bjarni á miðvikudag.