Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Staða ríkisfjármála þrengri en búist var við

22.11.2016 - 19:51
Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að staðan í ríkisfjármálum sé þrengri en búist hafði verið við. „Það er eitthvað sem þarf að leysa úr.“

Málefnahópar stjórnmálaflokkanna fimm sem standa í stjórnarmyndunarviðræðum áttu fundi í allan dag. Þingflokkur Vinstri grænna fer yfir afrakstur dagsins á fundi í kvöld.  Katrín segir að formenn flokkanna ætli að funda á morgun og fara yfir vinnu dagsins í dag og meta hvaða mál þurfi að ræða sérstaklega.

„Það liggur fyrir að við höfum lagt mikla áherslu á að geta ráðist í umbætur í heilbrigðis-og menntamálum. Það hefur kannski ekki verið einhugur um hvernig ætti að afla tekna til þeirra verkefna. Þannig að þetta eru kannski stóru verkefnin framundan og ég legg mikla áherslu á að við þurfum að standa við þau vilyrði sem gefin voru í kosningabaráttunni, af öllum flokkum, og snúast um ákall stórs hluta landsmanna um uppbyggingu á þessum sviðum.“

Aðspurð um hversu vongóð hún sé um að ná að mynda ríkisstjórn á næstu dögum, segir hún samstarf fólks í þessum flokkum til þessa lofa góðu. „Hvort sem okkur tekst að mynda ríkisstjórn eða ekki. Þær línur ættu að skýrast á næstu dögum.“

Katrín hefur haft umboð til stjórnarmyndunar í rétt tæpa viku. Hún segist ekki hafa upplýst forsetann um gang mála nýlega en hyggst gera það síðar í vikunni. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV