Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Staða Jóns sem ráðherra vond

27.11.2011 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Björn Valur Gíslason þingflokksformaður Vinstri grænna gagnrýnir vinnubrögð Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í tengslum við drög að nýju kvótafrumvarpi. Ráðherra hafi sniðgengið þingflokkinn, og staða hans sem ráðherra sé vond.

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti drög að nýju kvótafrumvarpi á ríkisstjórnarfundi fyrir helgi. Samkvæmt heimildum fréttastofu var hart tekist á á fundinum vegna frumvarpsins, og var málið tekið af ráðherra og sérstök ráðherranefnd skipuð til að semja nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gagnrýndi Jón Bjarnason harðlega í hádegisfréttum RÚV. Unnið hafi verið að nýju kvótafrumvarpi án samráðs við ríkistjórnina, og það myndi aldrei verða að stjórnarfrumvarpi.

Vinnubrögðin ekki til eftirbreytni

Björn Valur Gíslason þingflokksformaður Vinstri grænna tekur í sama streng. „Ráðherra hefur sjálfur birt drög að því sem hann kallar frumvarp til laga um stjórn fiskveiða á heimasíðu ráðuneytisins. Það kom mér og öðrum í þingflokknum á óvart að hann skyldi gera það enda höfðum við enga vitneskju um að slíkt væri að gerast. Hann hefur ekki rætt þetta í þingflokki Vinstri grænna eða borið sig upp við þingmenn Vinstri grænna um þetta mál,“ segir Björn Valur. „Mér finnst þetta vond vinnubrögð og ekki til eftirbreytni. Við munum ræða þetta í þingflokki Vinstri grænna á morgun.“

Aðspurður um stöðu Jóns sem ráðherra svarar Björn Valur: „Þetta er eins og með vinnubrögðin, hans staða hlýtur að vera jafn vond.“ Við það bætir Björn. „Það hlýtur að vera erfitt að vera í þeirri stöðu að vera að vinna framhjá sínum eigin þingflokki og þingmönnum. Hann rétt eins og er gegnir trúnaðarstörfum í umboði þingflokksins.“

 

Jón útskýri hvað hann er að gera

Björn Valur treystir sér ekki til að svara því hvort Jón eigi að segja af sér. „Ég veit ekki hvað ég á að segja um slíkt en hann verður að gera okkur, sem skipuðum hann sem ráðherra, grein fyrir því sem hann er að gera.“