Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Spyr hvort hluta byggðakvótans sé í raun sóað

29.12.2018 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Prófessor í félagsfræði dregur í efa að byggðakvótakerfið hafi skilað þeim árangri sem vonast var til. Óraunhæft sé að öflugur sjávarútvegur verði til framtíðar á öllum þeim stöðum sem hafa fengið byggðakvóta. Sum sjávarþorp hefðu meira gagn af því að leigja kvótann heldur en að reyna að byggja upp vinnslu.

Samkvæmt lögum fara 5,3% af heildarafla til aðgerða sem eiga að tryggja byggð í sjávarþorpum vegna hagræðingar og samþjöppunar í sjávarútvegi. Hluti af þessari ráðstöfun er byggðakvóti en í nóvember úthlutaði ráðherra rúmum 14 þúsund tonnum. 

Rúmur helmingur byggðakvóta án samninga um mælanleg markmið

Þarna eru á ferðinni mikil verðmæti en miðað við hundrað króna leiguverð á kíló er verðmætið næstum einn og hálfur milljarður á ári. Þrátt fyrir það hefur byggðakvótinn sum staðar ekki nýst til að halda í störf. Meira en helmingur er svokallaður almennur byggðakvóti, án samninga um mælanleg markmið. Dæmi eru um að aðkomumenn veiði þann afla, landi á viðkomandi stað en keyri aflanum í burtu.

Tæpur helmingur eða um 6400 tonn er sértækur byggðakvóti sem er úthlutað samkvæmt samningum við Byggðastofnun og á nýting hans að skila sér í uppbyggingu á vinnslu í landi. Rúmur helmingur eða tæp 7900 tonn er hins vegar almennur byggðakvóti án slíkra samninga. Hann dreifist á 42 byggðarlög sem fá 15 og upp í 300 tonn hvert.

„Getum ekki farið aftur á 8. áratuginn“

Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, hefur fjallað um þróun í sjávarbyggðum. „Byggðakvótakerfið kannski hefur ekki skilað þeim árangri sem vonast var til. Að hluta til af því að þetta eru litlar heimildir og dreifast víða. En líka vegna þess að það eru skráðar aflaheimildir á tæplega 70 stöðum á landinu og það verður auðvitað ekkert þannig að það verði öflugur sjávarútvegur á öllum þessum stöðum í framtíðinni. Að það verði stór vinnsla á öllum þessum stöðum. Við getum ekki farið aftur á 8. áratuginn en hvernig getum við notað þessi verðmæti sem felast í byggðakvótanum til þess að hjálpa þessum byggðarlögum að móta sína framtíð,“ segir Þóroddur.

„Gætum við nýtt þessi verðmæti betur“

Hann átti sæti í starfshópi sem skilaði tillögum um endurskoðun á byggðakvóta. Nú eru þær tillögur hluti af gögnum sem nefnd þriggja þingmanna mun styðjast við í nýjum tillögum til ráðherra. Þóroddur segir að fiskvinnslan sé að verða mjög tæknivædd og það sem voru meðalstórar vinnslur fyrir 5 eða 10 árum teljist mjög litlar vinnslur í dag. Ein af tillögum hópsins var að opnað yrði á leigu á byggðakvóta til nágrannabyggðarlags sem gæti nýtt hann betur. „Og spurningin er sú ef þú ert að úthluta segjum 400 tonnum af kvóta og þú hefur vinnsluskyldu og segir: það verður að vinna þennan kvóta á staðnum, hvers konar vinnslu ertu að bjóða upp á? Er það grundvöllur fyrir rekstri á fyrirtæki? Þetta eru heilmikil verðmæti en ertu að sóa þeim með því að gera kröfu um að það eina sem megi gera með þennan kvóta sé að vinna hann á staðnum eða gætum við nýtt þessi verðmæti betur fyrir viðkomandi stað? Hvað myndu sveitarstjórnarmenn vilja gera ef þeir hefðu val? Ef þú mættir leigja byggðakvótann í næsta þorp og nota leigutekjur til þess að byggja upp til dæmis fyrir ferðaþjónustu? Er það eitthvað sem myndi verða til gagns?“

Varar við því að kippa einni stoð undan til að styrkja aðra

Einn af þeim stöðum sem hafa fengið byggðakvóta án þess að aflinn sé unninn á staðnum er Stöðvarfjörður. Á sama tíma standa byggðarþróunarverkefni eins og Sköpunarmiðstöðin þar frammi fyrir vanda vegna fjárskorts. Á Stöðvarfirði hafa bátar frá Grindavík veitt stóran hluta byggðakvótans og landað honum á staðnum, reyndar ásamt miklum öðrum afla enda liggur staðurinn vel við fiskimiðum.

Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, trúir á jákvæð áhrif byggðakvótans og segir hann koma sér vel þótt hann dugi ekki í öllum tilfellum til að standa undir vinnslu. Hún hefur efasemdir um að betra væri að leigja kvótann og nýta peningana í aðra uppbyggingu. Varasamt sé að kippa einni stoð undan viðkvæmum samfélögum til að byggja upp aðra. Í stað þess að verðmæti byggðakvótans yrði notað í önnur atvinnuverkefni vill hún að ríkið styðji þau sérstaklega.

„Það er líf í höfninni sem leiðir af sér afleidd störf á staðnum sem styrkir samfélagið. Og nefni ég fiskmarkað Austurlands sem er þar með útibú. Svo er veitingastaðurinn Brekkan. Það að kippa einni stoð undan viðkvæmu samfélagi til að byggja upp aðra er varasamt. Viðkvæmar byggðir þurfa fleiri stoðir,“ segir Eydís.

Þóroddur telur mikilvægt að skoða málin á hverjum stað fyrir sig. „Það sé þá metið hver er árangurinn af þeim verðmætum sem er verið að setja í verkefnið. Frekar heldur en að byggðakvótanum sé dreift vítt og breytt og svo voni menn það besta.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV