Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Spurningum enn ósvarað að fundi loknum

17.03.2015 - 10:44
Þingmenn stjórnarandstöðu telja að enn hafi ekki fengist svar við spurningunni um hvort Ísland hafi áfram stöðu umsóknarríkis að Evrópusambandinu. Þetta kom fram í máli þeirra að loknum fundi utanríkismálanefndar í morgun. Utanríkisráðherra sagði hins vegar að Ísland hefði ekki lengur þessa stöðu.

Fundur utanríkismálanefndar hófst hálfníu í morgun og stóð til rúmlega tíu. Á fundinn kom Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra til að svara spurningum nefndarmanna um bréf það sem hann sendi Evrópusambandinu í síðustu viku. Ráðherra fór af fundi nefndarinnar áður en honum lauk, rakleiðis á ríkisstjórnarfund. Hann sagði, þegar hann fór af fundi, að Ísland hefði ekki lengur þessa stöðu.

Óttar Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að fundi loknum að staðan væri enn mjög óljós. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist draga þá ályktun að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu væri enn í fullu gildi. Hann metur stöðuna þannig að ný ríkisstjórn geti tekið upp þráðinn hvenær sem er. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, sagði að eftir stæðu deilur um hvaða gildi þingsályktunartillögur hefðu. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði að ríkisstjórnin hefði sniðgengið Alþingi í þessu máli, þetta væri gerræði en ekki þingræði.

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði að fundi loknum að enn væru skiptar skoðanir um málið. Hann sagði að það væri þó ljóst að ferlinu sem hófst árið 2009 með aðildarumsókn sé lokið.

Eftir hádegi flytur utanríkisráðherra Alþingi munnlega skýrslu um Evrópumál.