Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Spurði út í viðbrögð við hatursorðræðu

13.06.2014 - 16:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Eygló Harðardóttir velferðarráðherra spurðist fyrir um hvernig önnur lönd berðust gegn hatursorðræðu, þegar hún hlýddi á pallborðsumræður á Nordisk Forum í dag.

Nordisk Forum er ráðstefna um jafnréttismál. Hún fer nú fram í Malmö í Svíþjóð. Þar koma saman konur frá öllum Norðurlöndum. Í dag fóru meðal annars fram pallborðsumræður um hatursfulla orðræðu – hatespeech.

Eygló spurði hvaða áætlanir og tæki önnur lönd hafi notað til að berjast gegn hatursorðræðu, meðal annars vegna umræðna sem verið hafa á Íslandi, meðal annars tengt Framsóknarflokknum. Hún segist lengi hafa haft áhuga á málinu.

Eygló segir að fundarmenn hafi ekki getað vísað í neinar áætlanir. Hatursorðræðan færi mikið til fram á samfélagsmiðlum, sem væru nýtt fyrirbæri. Þá hafi komið fram gagnrýni á stefnu stjórnvalda til að mynda í Noregi og sagt að hún gagnist ekki neitt.

Raunveruleg vandamál

Framsóknarflokkurinn hefur sætt harðri gagnrýni vegna framgöngu forystumanna flokksins, sérstaklega í Reykjavík, þar sem hvatt var til þess að úthlutun lóðar undir mosku yrði afturkölluð og varað við að múslímar hvettu til nauðungarhjónabanda.

„Maður sér það reglulega að það geta komið upp mál sem verða mjög heit. Ég sem ráðherra þessa málaflokks vil leggja áherslu á það að það er mikilvægt að við vinnum okkur áfram og finnum leið til að takast á við raunveruleg vandamál sem koma upp þegar fólk með ólíkan bakgrunn er að aðlagast okkur og við að aðlagast þeim.“ Segir Eygló.

Fjölbreyttara samfélag

Eygló segir að hatursfull umræða geti skaðað samfélög og fólk. Því vilji hún skoða hvað hægt sé að gera til að vinna gegn þessari orðræðu, sem beinist oft gegn konum, fötluðu fólki, innflytjendum, hinsegin fólki. „Ísland er að verða fjölbreyttara samfélag, þá er mikilvægt að við hugum að þessum þáttum.“

Brugðist við hatursfullum ummælum

En hefði forysta framsóknarflokksins þurft að bregðast við hatursfullum ummælum sem féllu um múslíma í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna.

„Það var brugðist við þessu, og kom skýrt fram hver stefna flokksins er. Sú stefna hefur verið margítrekuð.“ Segir Eygló. „Formaður flokksins hefur margítrekað það, ekki bara í tengslum við þetta heldur almennt. Sem ráðherra þessa málaflokks, er mikilvægt að við hugum að því hvað við getum gert sem samfélag í heild sinni til að vinna gegn hatursorðræðu, ekki einstökum ummælum, heldur orðræðunni í heild sinni.“

Sveinbjörg hafi skýrt orð sín

Því hefur verið haldið fram að Sveinbjörn Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti flokksins í Reykjavík, hafi með orðum sínum, kynt undir hatri í garð múslíma. Eygló telur hana hafa reynt að skýra orð sín. „Ég tel að hún hafi reynt að skýra sín orð og hvað hún átti við. Í mínum huga er algerlega skýrt að við mismunum ekki fólki og stefnuskrá flokksins er mjög skýr hvað það varðar að við viljum hafa samfélag á Íslandi þar sem allir eru jafnir.“