Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Spurð hvort hún sé með pabba sínum í vinnunni

Mynd: RÚV / RÚV
„Sumir karlar hafa kannski starfað sem smiðir í 50 ár og aldrei unnið með kvenmanni og ég er oft spurð að því hvort einhver eldri maður sé pabbi minn, hvort ég sé með pabba mínum í vinnunni,“ segir Eva Björk Sigurjónsdóttir, húsa- og húsgagnasmiður. Hún talaði í dag, sem fulltrúi Félags kvenna í karllægum iðngreinum, á fundi undir yfirskriftinni öll störf eru kvennastörf. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag.

Eva Björk segir að erfiðlega hafi gengið að komast á samning. „Þegar ég hringdi símtöl til að kanna vinnu, þá fékk ég alltaf sömu spurninguna, hvort ég ætti börn. Það fyndna var að strákarnir í skólanum fengu aldrei þessa spurningu þegar þeir hringdu,“ segir Eva Björk. 

Hún situr í stjórn Félags fagkvenna. Innan við eitt prósent húsasmiða eru konur. Konur sem vinna í karlægum iðngreinum eru oft eini kvenmaðurinn á vinnustaðnum og því ákváðu þær að stofna með sér félag og reyna að breyta staðalímyndum iðnaðarmanns.