Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sprungan í Ketubjörgum stækkar

22.07.2015 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan Skagafirði - www.skagafjordur.is
Aðeins er timaspursmál hvenær stór fleygur úr Ketubjörgum á Skaga hrynur í sjóinn segir bóndinn á Ketu. Sprungan hefur gliðnað talsvert síðan í vor og er orðin 70-80 sentimetra breið.

Sprunga í Ketubjörgum á Skaga við vestanverðan Skagafjörð hefur enn stækkað síðan í vor. Stór fylla í bjarginu færist fjær og er aðeins tímaspursmál hvenær hún hrynur í sjóinn, að sögn Hrefnu Gunnsteinsdóttur bónda í Ketu. Hún segist sjá greinilegan mun á sprungunni frá því í mars, nú sé hún orðin í það minnsta 70-80 sentimetra breið. Hrefna segir að ferðafólk stoppi við björgin til að njóta útsýnisins. Vegna leiðindatíðar í allt sumar hafi þó ekki verið mikil umferð við björgin en Hrefna segir að sumir ferðalangar hagi sér glannalega. Hættan sé augljós og hver og einn verði að bera ábyrgð á gerðum sínum. Á fésbókarsíðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra segir að fylgst sé með bjarginu og að greinilegt sé að fyllan sem er að skilja við meginlandið, fjarlægjast hægt og bókstaflega sígandi. Lögreglan varar fólk við að fara nærri brúninni og hefur verið settur upp borði sem takmarkar aðgengi.

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV