Sprotarnir sem eftirhrunsárin fóstruðu

Mynd: Nika Kramer / RÚV

Sprotarnir sem eftirhrunsárin fóstruðu

29.09.2018 - 09:00

Höfundar

Þetta voru tæknifyrirtæki, sérhæfð í stafrænum lausnum, stofnuð af fólki sem kunni að reikna og hafði verið að vinna í bönkunum. Svona lýsa viðmælendur Spegilsins í nýsköpunargeiranum hinum dæmigerðu eftirhrunssprotum, sem stungu sér upp úr sviðnum jarðvegi kreppunnar - en nýsköpunarflóran eftir hrun var fjölbreyttari. Spegillinn ræddi við stofnendur tveggja fyrirtækja sem segja má að hafi verið afsprengi hrunsins og stofnanda eins sem óx úr grasi í efnahagsumhverfi eftirhrunsáranna.

„Nú þegar þessir atburðir hrynja yfir okkur“

Nýsköpun var fyrirferðamikil í umræðunni eftir hrun og jafnvel talað um að með henni mætti endurreisa atvinnulífið. Hámenntað fólk sat aðgerðalaust og stjórnmálamönnum var mikið í mun að finna orku þess farveg. Hér má heyra brot úr samskiptum Ólafar Nordal, þingmanns Sjálfstæðisflokks, og Össurar Skarphéðinssonar sem var iðnaðarráðherra fyrir Samfylkingu í stjórn Geirs H. Haarde, á Alþingi í októberlok 2008. Þau bera tíðarandanum vitni. 

„Mig langar að ræða við hæstvirtan iðnaðarráðherra stuttlega um nýsköpunar og sprotafyrirtæki því þær hamfarir sem hér eru skilja marga íslendinga eftir á berangri. Þessa dagana streyma uppsagnarbréfin inn um lúgurnar, atvinnuleysið, sem við höfum ekki séð árum saman, okkar versti óvinur er farið að láta óþyrmilega finna fyrir sér. Það sem er óvenjulegt núna er hve mikið af velmenntuðu fólki er að missa vinnuna, margt af því hefur verið drifkraftur uppbyggingar atvinnulífsins á Íslandi og við verðum að reyna að nýta kraft þess til hins ítrasta og ná að leysa þann kraft úr læðingi áður en fólk missir hreinlega móðinn,“ sagði Ólöf og Össur svaraði. 

epa03167385 Icelander singer Björk performs during the second edition of the International Festival of Alternative Music Lollapalooza in Santiago de Chile, Chile, 31 March 2012. International bands like Artic Monkeys from Great Britain and Foo Fighters
 Mynd: EPA - EFE
Björk hvatti til nýsköpunar.

„Jafn ólíkir einstaklingar og hæstvirtur forsætisráðherra og söngkonan Björk hafa einmitt kallað eftir því að þjóðin fram með hugmyndir á þessu sviði einmitt þegar þessir atburðir hrynja yfir okkur. Það hefur gerst, háttvirtur þingmaður spurði sérstaklega um það hvort verið væri að vinna að því að ná samkomulagi við atvinnuleysistryggingasjóð til að tryggja að það fólk, hámenntað, vel þjálfað sem nú skyndilega þarf viðfang fyrir hendur sínar og huga geti notað aðstoðar sjóðsins til þess að starfa til dæmis hjá sprotafyrirtækjum eða stofna sín eigin og vinna að nýsköpun. Svarið er já, sú vinna er í gangi.“

Draumur að rætast eða nýsköpun af nauðsyn

Það urðu til nýjar hugmyndir í umróti hrunsins en hrap krónunnar gerði fólki líka kleift að hrinda gömlum hugmyndum í framkvæmd, stofna fyrirtæki sem erfitt hefði verið að koma á fót þegar góðærið var mest. Fyrirtæki sem það hafði jafnvel látið sig dreyma um að stofna lengi. Þá varð atvinnuleysi og skortur á tækifærum til þess að margir réðust í nýsköpun af nauðsyn. Hún hafði ekki verið efst á listanum þegar hærri laun buðust í fjármálageiranum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Heiðar og Garðar.

„Kennitalan er síðan í nóvember 2008, ég held þetta hafi gerst bara á fyrstu dögunum eftir hrun, þegar við sáum hvernig gengið fór,“ segir Garðar Þorvarðsson, forstjóri Kvikna Medical. „Við vissum alveg að við kunnum ýmislegt og sáum tækifæri í því að reyna að nýta okkur það,“ bætir Heiðar Einarsson, þróunarstjóri og meðstofnandi fyrirtækisins, við.

Garðar og Heiðar hafði áður langað til þess að stofna tæknifyrirtæki en sterk króna hnyklaði vöðvana framan í þá, svo lyppaðist hún niður eftir hrun og þá sáu þeir sér fært að hefja útflutning á vöru og þekkingu. Þeir byrjuðu fyrst sem verktakar, hjá bandarísku fyritæki, en urðu svo eigin herrar. 

„Við erum semsagt sérhæfðir í að þróa heilarita sem er á cloudinu, eða skýinu og erum orðnir langstærstir á þeim markaði, eigum í raun þann markað alveg í Bandaríkjunum allavega,“ segir Heiðar. 

Mynd með færslu
 Mynd: kvikna medical

Bankarnir hættu að ryksuga

Gengið var ekki það eina sem kom fyrirtækinu vel, eftir hrun var líka auðveldara að fá tæknimenntað fólk til starfa. 

„Því bankarnir og fjármálageirinn höfðu ryksugað alla sem kunnu eitthvað með tölur að fara, þetta fólk sat allt í bönkunum og reiknaði út einhverjar afleiður. Þetta gerði það að verkum að það var hægt að fá fólk aftur sem kunni til verka, á launum sem voru samkeppnishæf í alþjóðlegu samhengi, sem var ekki þessi síðustu ár fyrir hrun,“ útskýrir Garðar. 

Sátu og spiluðu tölvuleiki

epa01509669 An undated handout made available on 04 October 2008 shows the headquarters of Icelandic bank Kaupthing in Reykjavik, Iceland. According to reports on 04 October 2008 following rumours that Icelandic bank Kaupthing, which also owns the British
 Mynd: EPA - Kaupþing
Ljósin kveikt í Kaupþingi.

Sjálfir unnu þeir báðir í fjármálageiranum fyrir hrun. Heiðar minnist þess hvernig stemmningin og verkefnin í bankanum breyttust eftir að skilanefndirnar komu inn. „Það var meira að segja þannig að fólk hafði engin verkefni, það sat bara og spilaði kapal og alls konar tölvuleiki, og í svolítinn tíma, minnir mig.“

En hvernig gekk að fjármagna rekstur nýs fyrirtækis þegar allt var við frostmark í íslensku viðskiptalífi? „Við bara vorum með þannig bissnessmódel að við þurftum ekki fjármögnun inn, við fengum tekjur strax fyrsta mánuðinn sem dugðu fyrir útgjöldum og náðum að sauma okkur stakk eftir vexti. Við fengum í raun ekkert fjármagn inn fyrr en 2011,“ segir Garðar. 

Skattaendurgreiðslan hjálpaði mest

Þá munaði um stuðning frá hinu opinbera. Þeir fengu styrki frá Tækniþróunarsjóði og Nýsköpunarmiðstöð útvegaði þeim hagkvæmt húsnæði fyrstu árin. Sú aðgerð sem skipti mestu var endurgreiðsla á rannóknar- og þróunarkostnaði, skattaendurgreiðsla sem fest var í lög í lok árs 2009.

Ljósapera á viðarborði
 Mynd: Stocksnap.io

Leiddust hrunmálarannsóknir

Snertiflötur fyrirtækja við hrunið var mismikill en það markaði auðvitað þau fyrirtæki sem slitu barnsskónum á eftirhrunsárunum. Hönnunarfyrirtækið Tulipop, sem framleiðir vörur fyrir börn, er eitt þessara fyrirtækja, Helga Árnadóttir og Signý Kolbeinsdóttir fóru að leggja drög að stofnun þess veturinn 2009. Helga var þá nýkomin úr viðskiptanámi í London og vann hjá endurskoðunarfyrirtæki við að rannsaka hin ýmsu hrunmál. 

Henni fannst vinnan ekki upplífgandi og það átti sinn þátt í því að hún ákvað að söðla um. Signý, sem er vöruhönnuður, var þá byrjuð að þróa vörur og teiknimyndir með hinum ýmsu ævintýrapersónum sem einkenna fyrirtækið. Markmiðið var að búa til alþjóðlegt fyrirtæki í kringum þessar persónur. 

Nett galnar? 

Helga ræddi við Spegilinn um upphafsár fyrirtækisins og áhrif hrunsins. „Það voru margir sem kannski sögðu það ekki þá en segja það núna að þeim fannst við svona nett galnar að fara út í það að stofna fyrirtæki og fara úr einhverju öruggu starfi út í óvissuna á þeim tíma“. 

Mynd með færslu
 Mynd: Tulipop
Helga og Signý, stofnendur Tulipop.

Þegar Helga lítur til baka getur hún ekki séð að hrunið hafi haft bein áhrif á hvernig fyrirtækinu vegnaði. Efnahagsástandið hafi þó haft áhrif, sérstaklega á meðan fyrirtækið fékk engar tekjur erlendis frá. 

„Verslanir þurftu að passa hvað þær keyptu mikið inn og svo framvegis. Öll þjónusta sem við þurftum að kaupa erlendis frá var líka rosalega dýr og mikil áhætta að fara í einhver stór verkefni erlendis þar sem voru miklar gengissveiflur og gengið eins og það var. Þegar við svo fórum að framleiða vörur utan Íslands var líka áhætta fólgin í því.“ 

Fyrstu klasarnir

Fyrirtækið naut þó líka góðs af ýmsum aðgerðum sem ráðist var í til að styðja við nýsköpun eftir hrun. Til dæmis af Átaki til atvinnusköpunar og láni úr Lánatryggingasjóði kvenna sem var endurvakinn árið 2011. „Við fengum líka afnot af skrifstofu sem var í húsnæði sem Íslandsbanki lét Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafa til afnota. Náttúrulega á besta stað í bænum, tvær hæðir í Lækjargötunni þar sem Íslandsbanki var með útibú, sem voru tómar eftir hrun. Þar var bara virkilega gott að vera, þar var lág leiga, fín aðstaða, aðgengi að fundarherbergjum og starfsfólki Nýsköpunarmiðstöðvar sem var allt af vilja gert til að aðstoða. Síðast en ekki síst líka bara að vera á sama stað og önnur fyrirtæki sem voru að stíga sín fyrstu skref.“

Mynd með færslu
 Mynd: ... - Flickr
Skrifstofur, þar sem mörg fyrirtæki gátu leigt aðstöðu og stækkað og minnkað við sig eftir þörfum, fóru fyrst að njóta vinsælda hér eftir hrun að sögn Helgu.

Hún segir að fyrstu klasarnir á Íslandi hafi í raun orðið til eftir hrun og farið að bera á því að fyrirtæki fyrirtæki deildu vinnuaðstöðu. Það sé frábært fyrir fyrirtæki í vexti að geta verið í húsnæði þar sem þau eigi auðvelt með að stækka og minnka eftir þörfum. 

Höftin þvældust fyrir

Í heimi nýsköpunar eru styrkir frá Rannís og skattaendurgreiðsla vegna þróunarkostnaðar aðal stöplarnir að sögn Helgu. Tulipop hefur ekki fengið endurgreiðslu. „Svarið sem við fengum var að hönnun væri ekki þróun.“ Hún stendur í þeirri trú að þetta sé eitthvert skilgreiningaratriði og að því verði breytt, segir augljóst í sínum huga að fyrirtækið sé að þróa hitt og þetta, svo sem vörur og teiknimyndaseríur. „Við erum svona að vinna að því að hnika þessu í rétta átt.“ 

Hrunið fylgdi Tulipop lengi, gjaldeyrishöftin þvældust til dæmis fyrir þegar fyrirtækið stofnaði dótturfyrirtæki í Bandaríkjunum í byrjun árs 2017.

„Við eiginlega vorum bara rosalega heppnar að lögum var breytt þannig að við þurftum ekki að sækja um undanþágu frá Seðlabankanum.“ 

„Þú mátt ekki segja neinum frá þessu“

Mynd með færslu
 Mynd: Ingi Rafn Sigurðsson
Ingi Rafn Sigurðsson, stofnandi Karolina Fund, vann í söluveri í banka.

Ingi Rafn Sigurðsson, stofnandi hópfjármögnunarsíðunnar Karolina Fund, var líkt og þeir Garðar og Heiðar gleyptur af banka fyrir hrun. Hann segir að það hafi verið ákveðnar blikur á lofti mánuðina fyrir hrun, fólk hafi gert sér grein fyrir því að bankakerfið var viðkvæmt.

„Ég flutti  lífeyrissparnaðinn minn sem var allur í hlutabréfum Kaupþings, það var hvatning innan kerfisins um að þú fékkst viðbótarmótframlag frá bankanum ef þú fjárfestir öllum þínum lífeyrissparnaði í hlutabréfum í Kaupþingi, ég flutti allan peninginn minn út úr þeim sjóði yfir á verðtryggðan innlánsreikning tveimur mánuðum fyrir hrun þannig að eitthvað sá maður fyrir en það voru aðilar sem sögðu mér, innan úr bönkunum, að ég mætti ekki segja neinum frá þessu.“ 

Þurfti endilega að taka bankalán til að láta drauma rætast?

Hann starfaði í 50 manna söluveri og fljótlega eftir hrun var öllum sagt upp nema honum. Á meðan hann reyndi að sjá um öll verkefni deildarinnar varð hugmynd sem hann hafði fengið fyrir hrun, um hvort hægt væri að fjármagna verkefni öðruvísi en með bankaláni, sífellt áleitnari. 

„Ég man eftir aðila sem var að gefa út, hvort það var bók eða plata, og lenti í verulegum hremmingum eftir að hafa tekið lán í banka til að láta draum sinn rætast.“

Dyggur stuðningsmaður borgaralauna

Hann byrjaði, samhliða vinnunni í bankanum, að leggja drög að kerfi og vefsíðu, og fékk vini og kunningja, sem voru nýkomnir úr námi, til liðs við sig. Árið 2011, þegar verkefnið var farið að taka á sig mynd, sagði hann yfirmönnum sínum í bankanum frá því. 

„Ég ætla ekki að fullyrða að það hafi endilega tengst en ég var rekin í framhaldi af því og það var algjör guðsgjöf því þetta gerði mér kleift að fara til Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar og fara í kerfi sem hét Eigið frumkvöðlastarf og vinna að uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja, ég var í tvö ár í þessu systemi á atvinnuleysisbótum.“

Eftir þessa reynslu varð hann dyggur stuðningsmaður borgaralauna. Hann segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá hinu opinbera þó alltaf megi gera betur. Það hafi munað mikið um milljón sem fyrirtækið fékk frá Átaki til atvinnusköpunar, sjóði sem nýlega var lokað. Fyrirtækið gat þá haft forritara í fullri vinnu um tíma. Seinna skipti styrkur frá Rannís máli og svo skattaendurgreiðsla stjórnvalda.

Rímaði við stemmninguna

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Það kviknuðu nýjar hugmyndir eftir hrun og sumir blésu lífi í gamlar.

Árið 2014, segir hann Karolína Fund hafa sprungið út. Á stuttum tíma hafi ríkið fengið framlag sitt til verkefnisins margfalt til baka. 

Hann telur að það hafi verið heppilegt að stofna hópfjármögnunarfyrirtæki eftir hrun, framtakið hafi rímað vel við stemmninguna í samfélaginu. Ekki hafi þó öll sambærileg verkefni náð fótfestu, þannig hafi jafningjalánafyrirtækið Uppspretta ekki náð sér á strik, „þó að það væri mjög flott jafningjalánasíða“.

Krónan farin að klekkja á alþjóðlegum fyrirtækjum

Tekjur Karolina Fund eru í evrum, þær hafa því lækkað að undanförnu. Sama er uppi á teningnum hjá Kvikna Medical. Veikluleg króna hélt áfram að vinna með fyrirtækinu, sem fær tekjur í erlendum gjaldmiðli en greiðir gjöld í krónum, þar til ferðaþjónustan sprakk út og krónan fór að sperra sig á ný. 

„Þetta væri vonlaust verk í dag, í það minnsta bara fyrir vitleysinga, að fara í svona fyrirtæki,“ segir Garðar.  Það væri ágætt ef gjaldmiðillinn fylgdi öðrum, hagaði sér ekki eins og korktappi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Peningar
Krónan er aftur farin að gera fólki erfitt fyrir að stofna alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki að sögn Garðars.

Ef ekki hefði orðið hrun - hefðu þessi fyrirtæki þá orðið til? „Nei,“ segir Ingi Rafn. Það hefði ekkert orðið af þessu hefði hann ekki misst vinnuna í bankanum og fengið tækifæri til að vera á borgaralaunum. Garðar segir að líklega hefði Kvikna Medical ekki orðið til, „að minnsta kosti ekki á þessum tímapunkti og líkast til ekki yfir höfuð.“ Hefði Tulipop orðið til ef Helgu hefði ekki farið að leiðast hrunmálavinnan á endurskoðunarskrifstofunni? „Það er bara ekkert víst, lífið er náttúrulega bara svolítið röð tilviljana, hefði ég farið að gera eitthvað annað er ekkert víst að við Signý hefðum lagt af stað í þessa vegferð.“ 

En kenndi hrunið þeim eitthvað? Bæði Heiðar hjá Kviknu og Ingi Rafn hjá Karolína Fund, segjast hafa forðast skuldsetningu. 

„Keyra þetta aldrei á lánum því það mun koma önnur kreppa og kannski stöndum við frammi fyrir henni fyrr en síðar,“ segir Ingi Rafn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Forðuðust skuldsetningu.

„Við tókum þá ákvörðun sameiginlega að reyna bara að skuldsetja okkur ekki neitt, fá ekki fjárfesta inn strax. Ég held við höfum verið mjög varfærnir, að taka lán á himinháum vöxtum var ekki eitthvað sem við vildum gera,“ segir Heiðar. 

Útrásin ofboðslega góður skóli

Garðar er ekki jafn afdráttarlaus þegar kemur að lexíum hrunsins en bendir á að veganestið úr fjármálageiranum hafi verið gott og nýst afar vel í fyrirtækjarekstri, það að kunna samningagerð og vita hvernig fjárfestar hugsa og geta séð hlutina frá öllum hliðum. „Ég held reyndar að þessi ofboðslega útrás hafi verið svakalega góður skóli fyrir marga Íslendinga, að það hafi mjög margir lært mjög mikið þó það hafi auðvitað kostað sitt.“

epa04896855 A zoomed picture shows market gains  displayed on the Australian Securities Exchange (ASX) trading board in Sydney, Australia, 25 August 2015. After an initial 1.5 percent plunge at both the S&P/ASX 200 and the All Ordinaries, which pulled
 Mynd: EPA - AAP

Stjórnvöld stóðu vörð um sjóðina

Ásókn í sjóði jókst eftir hrun og Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís, segir að borist hafi margar umsóknir frá mjög hæfu fólki sem bankarnir höfðu skólað. 

Hann segir að stjórnvöld hafi staðið vörð um sjóðina sjálfa í þeim skilningi að þar var lítið sem ekkert skorið niður fyrstu ár eftir hrun, þeir rýrnuðu þó vegna verðlagshækkana. Nokkrum árum eftir hrun, á árunum 2013 til 2016 var farið að bæta í á ný, og þá verulega. Hann segir að stjórnvöld hafi með því að verja sjóðina sent þau skilaboð að nýsköpun skipti máli. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís.

Frumtak og skattafrádráttur

Nýsköpunarsjóður námsmanna var efldur, hann var liður í því að útvega stúdentum sumarvinnu. Í byrjun árs 2010 tóku svo gildi lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki - þar var þeim veittur réttur til skattafrádráttar vegna kostnaðar við þróunarverkefni, fyrstu endurgreiðslur skiluðu sér 2011. Eyþór Ívar Jónsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands segir að Frumtak hafi skipt sköpum, sjóður fyrir áhættufjárfestingar sem ríkið setti fjármagn í. 

LItu á nýsköpun sem sultuframleiðslu

Má klappa stjórnvöldum eftirhrunsára á bakið fyrir stefnumótun á sviði nýsköpunar? Þau stóðu vörð um ýmislegt en á sama tíma þurrkaðist allt annað fjármagn upp, segir Eyþór Ívar. Eftir hrun var hann framkvæmdastjóri Klaks sem nú heitir Icelandic startups. Hann segir að það hafi verið mikið talað um nýsköpun, að hún ætti að bjarga öllu, en lítið gert. Grasrótin í nýsköpunarstarfi hafi styrkst á þessum tíma og viðhorf til nýsköpunar breyst aðeins - fyrst hafi fjölmiðlamenn og pólitíkusar i horft á þá sem töluðu fyrir nýsköpun eins og þeir væru að tala fyrir því að reisa sultuverksmiðju.

Sultukrukkur í hillu.
 Mynd: Pixabay
Er nýsköpun eitthvað ofan á brauð?

Ísland hefði getað orðið leiðandi í fjármálatækni

Stjórnvöld hafi þó glatað tækifæri, þau hefðu getað stofnað nýsköpunarráðuneyti, sem væri það í alvöru, ekki bara að nafninu til og stutt betur við geirann. Ísland hefði getað orðið best í fjármálatækni, því að nota svokallaðar bitakeðjur, eða blockchain-tækni til nýsköpunar í fjármálageiranum - í staðinn séum við fáránlega aftarlega á því sviði.  

Sprotar náðu góðri spyrnu 

Ásókn í sjóði er enn mikil, Hallgrímur segir hana í raun ekkert hafa minnkað, þrátt fyrir þensluna. En hversu miklu skipti nýsköpun fyrir endurreisn hagkerfisins eftir hrun? Hallgrímur segir það ekki hafa verið greint sérstaklega, en telur að nýsköpun hafi skipt miklu máli fljótlega eftir hrun meðan gengið var veikt, margir sprotar hafi náð góðri spyrnu inn í framtíðina, sprotar sem í dag séu orðnir stöndug fyrirtæki. 

Alþingishúsið séð úr bakgarðinum við Alþingishús að vetri til.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Eyþór og Hallgrimur eru sammála um að viðhorf stjórnmálamanna til nýsköpunar hafi breyst eftir hrun.

Þá hafi allt í einu skapast hljómgrunnur fyrir skattaendurgreiðslu sem ekki hafi verið til staðar fyrir hrun þrátt fyrir ákall hagsmunaaðila þar um. Sú endurgreiðsla lifir enn góðu lífi í dag. 

Pistillinn var fluttur í Speglinum á miðvikudag.